137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það var með sorg og samúð í hjarta sem ég horfði á frétt um Björn Mikaelsson sem reif húsið sitt á þjóðhátíðardaginn okkar. Fréttin birtist í Kastljósinu í gær. Lánið á húsinu hans hafði farið úr 34 millj. kr. í 76 við hrun bankanna og hann sá í rauninni ekkert annað úrræði eins og hann orðaði það, „bankahrunið er hryðjuverk og ég framdi skemmdarverk á móti“, sagði Björn.

Í tölvupósti frá forstjóra Kaupþings til starfsmanna segir hann að úrræði ríkisstjórnarinnar dugi ekki til og stjórnvöld hafi ítrekað sagt að ekki standi til að lækka skuldir heimilanna með flötum niðurskurði. Það blasi hins vegar við að þau úrræði sem þegar hafa verið kynnt muni ekki duga eða séu of þung í vöfum til að gagnast nægilega vel. Því hefur bankinn ákveðið að leita nýrra leiða og er að kynna þær leiðir fyrir stjórnvöldum.

Ég hefði mikinn áhuga að heyra frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvort hún sé sammála því að það sé jafnvel nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um greiðsluaðlögun eða hvort það sé eðlilegra að bankarnir móti sína eigin greiðsluaðlögunarleiðir eða leiðréttingu á lánum. Telur hv. þingmaður ekki að það sé hætta, ef bankarnir fara sjálfir að gera þetta fyrst ríkisstjórnin virðist vera óviljug til að taka á þessum vandamálum, á skorti á gagnsæi og jafnvel spillingu og misnotkun vegna vinatengsla og er ekki einmitt ástæða fyrir þingnefndir að taka þetta mál upp, að taka upp lögin um greiðsluaðlögun, eins og m.a. einn stjórnarliði, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, benti á fyrir nokkrum vikum síðan?