137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:48]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér stendur til á næstu dögum, ef stjórnarflokkarnir geta myndað einhvers konar meiri hluta sem er alls óvíst, að skrifa undir ríkisábyrgð fyrir hið svokallaða Icesave-lán. Með vöxtum gæti þessi ábyrgð verið allt að þúsund milljarðar, við skulum vona að það fáist eitthvað upp í það, en svona til samhengis nemur það um 60–65% af landsframleiðslu. Það sem meira er, og gæti verið athyglisvert fyrir hv. samfylkingarþingmenn, mun þetta klára Maastricht-skilyrðið um skuldir sem hið opinbera má bera. Evran er þar þá fyrir bí.

Þetta var bara til að setja hlutina í samhengi. Í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að pólitískur aðstoðarmaður fjármálaráðherra hafi lýst yfir við Morgunblaðið — og ef ég má, með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr Morgunblaðinu :

„Aðstoðarmaðurinn Indriði H. Þorláksson segir við lesendur Morgunblaðsins að líkt og í venjulegum lánaviðskiptum geti eigandi skuldarinnar“ — þ.e. Icesave-skuldarinnar — „sem í þessu tilviki eru bæði Bretar og Hollendingar, farið fram á fjárnám í eigum skuldarans, sem er jú íslenska ríkið, standi hann ekki í skilum.“

Þessi tvö ríki gætu gert fjárnám í gjaldeyrisforða Íslendinga sem eru í þessum löndum.

Fjármálaráðherrann segir hins vegar við Fréttablaðið að þetta sé alveg fráleit túlkun. Nú kemur fram mikið misræmi í ummælum þessara tveggja manna um raunverulega aðfararhæfni (Forseti hringir.) að eigum íslenska ríkisins og þess vegna spyr ég hv. þm. Helga Hjörvar: Gætir þú útskýrt fyrir þingheimi af hverju þetta misræmi stafar?