137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég verð að vísu að hafa fyrirvara á þeim endursögnum á þeim ummælum sem vísað er til því að þau hef ég ekki sjálfur frá fyrstu hendi og auðvitað líka þann fyrirvara að við eigum eftir að taka málið til vandlegrar umfjöllunar í þinginu og þá á ýmislegt eftir að skýrast.

Ég hygg þó, eins og hv. þingmaður vísar til málsins, að hér sé fyrst og fremst spurningin um annars vegar hina fræðilegu nálgun og hins vegar hina praktísku. Ákvæði Icesave-samningsins breyta út af fyrir sig engu um aðfararhæfni að eignum Íslands hér á landi. Það er þannig fræðilega að sé ríkið ekki gjaldfært er hægt að sækja það fyrir íslenskum dómstólum. Í praktíkinni er það þannig að ef ríkið er ekki gjaldfært gengur það ekki þannig fyrir sig, heldur fer það til sérstakrar meðferðar og inn í Parísarklúbbinn eins og við þekkjum.

Það sem fallið er frá í samningnum lýtur að aðfararstöðunni á erlendri grundu og þá þannig að hægt sé að stefna ríkinu vegna samningsins sem gerður er í því lögsagnarumdæmi sem hann heyrir undir sem er þá England og þá, eftir atvikum, ef ekki hefur verið staðið í skilum, gera aðför að eignum en þó þannig að sérstakir alþjóðlegir samningar, eftir þeim upplýsingum sem ég nú hef, greina best að ýmislegt það sem tilheyrir ríkinu með sérstökum hætti, svo sem sendiráð og gjaldeyrisvarasjóður, sé þar undanskilið.

Ég hygg þess vegna að munurinn á þessu sé fyrst og fremst sá að útlegging aðstoðarmannsins, þ.e. svipaðar túlkanir og hv. þingmaður lýsir, nái til hinnar fræðilegu stöðu en hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hafi lýst hinni praktísku stöðu í samskiptum þjóða.