137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir svör við fyrirspurn minni um greiðsluaðlögun ríkisstjórnarinnar. Hún talaði um það að þetta úrræði hefði gagnast vel í nágrannalöndum okkar. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta úrræði hefur aldrei verið nýtt fyrir heila þjóð. Aldrei. Og það virðist vera það sem ríkisstjórnin hugsar sér með þessari greiðsluaðlögun.

Þegar Norðurlöndin fóru í gegnum sína bankakreppu voru hlutföllin svo miklu betri en eru hjá okkur. Okkar bankakreppa er mun líkari bankakreppunum í Asíu. Það kom nú bara nýlega fram á fundi sem viðskiptanefnd átti við einn af bönkunum að staðan í þeim banka, sem væntanlega er einna best settur af þeim þremur, er upp á tæplega 70% af lánunum í einhvers konar vanskilum.

Þetta er mjög sambærilegt við stöðuna eins og hún var í Indónesíu og fleiri Asíulöndum á sínum tíma. Heimtur þar voru kannski um þriðjungur, 30–40%, af þessum vanskilum. Við erum að tala um allt aðra stöðu hér en var í bankakreppunum á Norðurlöndunum. Mér finnst mikið áhyggjuefni að þingmaðurinn telji ástæðu til að bíða og sjá hvernig þetta muni þróast þegar við erum farin að horfa upp á hvers konar örvænting er til staðar hjá almenningi, þegar fólk er farið að leigja sér gröfur og frekar rífa niður húsin sín, ha, en að sitja undir þess konar hryðjuverkum eins og talað er um að bankahrunið sé og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar verð ég að segja að lokum að ég minntist aðeins á þetta við formann allsherjarnefndar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, og hún tók (Forseti hringir.) mun jákvæðar í það að allsherjarnefnd tæki málið upp og flytti þá hugsanlega annað frumvarp eins og þau (Forseti hringir.) gerðu á sínum tíma með þetta greiðsluaðlögunarmál.