137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Því er til að svara að það stóð aldrei til að þessar ráðstafanir yrðu lagðar fram á þingi fyrr en í júnímánuði og er langt síðan sú tímasetning lá fyrir að þannig yrði það að slepptum þeim aðgerðum sem gripið var til í maí. Allmargar vikur eru síðan upplýst var að frumvarp kæmi fram um miðjan mánuðinn og síðan í framhaldinu var áætlað að viku til 10 dögum seinna yrði viðamikil skýrsla lögð fyrir þingið um áætlunina í heild sinni.

Það sem hefur kannski tafið þetta um nokkra daga er að verið hefur mjög víðtækt samráð í gangi um aðgerðir á sviði efnahags- og kjaramála, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi tekið eftir, þar sem stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og stjórnarandstaðan hafa fundað, gjarnan í Karphúsinu eða annars staðar í bænum, og þessar ráðstafanir hafa verið í undirbúningi samhliða og þær hafa verið kynntar á þessum vettvangi og þannig verið reynt að skapa sem mesta samstöðu um þær.