137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jafnvel þó að við getum hugsanlega verið sammála um það að eðlilegt sé að aðgerðirnar komi fram á síðari hluta ársins þá verð ég að vekja athygli á því að það er harla aumt að ætla að nota það sem afsökun núna að það hafi verið svo lítill tími til að undirbúa sparnaðaraðgerðir hjá ríkinu að það sé ekki hægt að gera meira í þeim efnum og leggja verði allan þungann á skattahliðina þegar vandinn hefur legið fyrir. Það kemur fram í frumvarpinu, í almennum athugasemdum við frumvarpið, ef ég man rétt, að þegar um miðjan mars hafi ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn séð fram á nokkurn veginn stærðargráðuna á því sem þyrfti að takast á við, þannig að við höfum þá haft þrjá mánuði til að undirbúa tillögur um sparnað í ríkisrekstrinum. Af hverju er svona miklu auðveldara að undirbúa tillögur um skattahækkanir en um sparnað? Af hverju er miklu auðveldara að leggja byrðarnar á fólkið og fyrirtækin í landinu en að draga saman í hinum opinbera rekstri?