137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú kannast ég við gamla góða Sjálfstæðisflokkinn og klisjurnar. Vilja ekki hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fara í heimsókn í nokkrar opinberar stofnanir núna og ræða þar við stjórnendur og starfsfólk um það hvers konar verkefni (Gripið fram í.) það er að takast á við í viðbót við þann niðurskurð sem varð um síðustu áramót 1,5% sparnað á öllum rekstri á síðari helmingi ársins miðað við ársveltu? Það eru 3% sem menn þurfa að bæta núna ofan á, komnir inn á mitt ár, búnir að gera sín plön og sínar áætlanir. Það er talsverð krafa á þessar stofnanir. Og þegar í vændum er á árinu 2010 10% niðurskurður á þessum liðum þá held ég að enginn sanngjarn maður geti sagt annað en að reksturinn á svo sannarlega að leggja sitt af mörkum í þessum aðhaldsaðgerðum. Áhyggjuefnið er auðvitað hvernig það er hægt og reyna jafnframt að tryggja þjónustuna og verjast því að til mikilla uppsagna þurfi að koma. Vilja ekki hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins líka hugsa um þá hlið?