137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það liggur þá fyrir að afkomubatinn í grófu mati gæti verið einhvers staðar um 12–14 milljarðar, miðað við þá áætlun sem hér liggur fyrir.

Ég vil enn fremur spyrjast fyrir um það með hvaða hætti gert er ráð fyrir því að mæta þeim umframkostnaði sem þegar liggur fyrir að er í rekstri ýmissa stofnana á vegum ríkisins. Við erum að fá upplýsingar um það inn í fjárlaganefnd að af þeim stofnunum ríkisins sem þegar hafa skilað inn uppgjöri má gera ráð fyrir því að rúmlega 100 stofnanir þeirra hafi ekki staðist 4% umframregluna á fjárlögum. Því liggur fyrir að það er töluverður umframkostnaður sem á eftir að mæta og kemur þá væntanlega til lækkunar á þeirri markmiðstölu sem hér liggur fyrir, 22,3 milljarðar til viðbótar þeim 7–8 milljörðum sem í Atvinnuleysistryggingasjóðinn þurfa að fara.