137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ærið viðfangsefni fyrir mjög marga aðila innan ríkiskerfisins að halda sig innan ramma fjárlaga eins og hann var áður settur og ljóst að mönnum gengur það misvel. Í það heila tekið held ég að verði þó að segja að útkoman eftir fyrstu þrjá eða fyrstu fjóra mánuði ársins sé ásættanleg og það eru tiltölulega fáar stofnanir þar sem menn virðast enn eiga verulega langt í land en þær eru til, það er hárrétt hjá hv. þingmanni og ég veit að hann þekkir vel inn á þetta. Hvernig árið síðan í heild sinni kemur til með að verða gert upp er auðvitað afar erfitt að segja á þessu stigi en eitt er víst og það er að reynt er að beita miklu aðhaldi og þrýstingi á stofnanir að skila inn tillögum og að bregðast við ef þær fá á sig gult ljós, þ.e. fara út fyrir þau viðmiðunarmörk sem reynt er að hafa í þessu. Ég vil svo bæta því við að ætlunin er að stórefla framkvæmd fjárlaga og eftirfylgni fjárlaga að þessu leyti og taka upp mánaðarlega (Forseti hringir.) eftirfylgni í stað ársfjórðungslega eins og notuð hefur verið fram að þessu.