137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma mér beint að efni spurningarinnar. Þetta snertir töflu á bls. 15, sem er í rauninni skýring á töflunni á bls. 11 sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti á áðan og spurði út í.

Hér er verið að fjalla um aukna tekjuöflun upp á 13,2 milljarða. Ef við horfum á töfluna, það eru kannski ekki allir með hana fyrir framan sig, en þar kemur fram að vísitöluáhrifin af tilfærslu á virðisaukaskatti eru um 0,35%. Mig langar að spyrja hvort þetta gæti ekki verið villa, að það eigi ekki að vera 0,25%. En það vantar í þetta tekjuöflunina til þess að þetta verði þá 13 milljarðar varðandi skattahækkanirnar á áfengi og tóbaki. Þar erum við að tala um vísitöluáhrif upp á 0,5% sem þýða, að mig minnir 8 milljarðar. Í staðinn fyrir að vísitöluáhrifin séu (Forseti hringir.) þá 0,25% eiga þau að vera 0,75% sem eru þá eitthvað í kringum 12, 13 milljarðar (Forseti hringir.) sem lán heimila í landinu munu hækka.