137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast ekki við annað en að það sé gengist hreinskilnislega við verðlagsáhrifum og það er engin tilraun gerð til að fela þau. Ég margfór yfir það í framsöguræðu minni hver þau yrðu, en ég vek athygli á því að seinni hluti þeirra breytinga sem áhrif hafa á verðlag beint koma ekki til framkvæmda fyrr en með haustinu og vonandi verða þau verðlagsáhrif sem allra minnst.

Varðandi framkvæmdaþættina er einfaldlega ætlunin að ná þessum sparnaði út úr framkvæmdalið Vegagerðarinnar í heild sinni á þessu ári með því að fresta frekari framkvæmdum með því að semja um að hægja á framkvæmdum og með því að færa greiðslur yfir áramót og þar fram eftir götunum. Það er mat manna að þetta sé raunhæft markmið, að þessum sparnaði verði náð. Það kemur svo í ljós betur nákvæmlega hvaða framkvæmdir það þá verða og með hvaða hætti það verður gert.

Það er auðvitað tilfinnanlegt að draga úr opinberum framkvæmdum á þessu ári og hinu næsta en á móti kemur það vonandi að það eru viðræður við lífeyrissjóði um aukna þátttöku þeirra í ýmsum verkefnum. (Forseti hringir.) Von okkar er því sú að á sama tíma og ríkið dregur sig til baka vegna aðstæðna í fjármálum (Forseti hringir.) auki aðrir aðilar umsvif sín.