137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Vissulega var aukið í á þessum tíma enda leyfðu aðstæður ríkissjóðsins það alveg tvímælalaust. Ég er ekkert að draga úr því. Það sem ég hef verið að benda á er að það eru sóknarfæri upp á 1.800 milljónir á öðrum stöðum en þeim sem þarna um ræðir. Það sem ég vil halda fram er að eðlilegra væri, ef viljinn stendur til þess að taka 1.800 milljónir út úr rekstri ríkisins, þá ættum við að taka hann fyrr og annars staðar en þarna er gerð tillaga um.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri til stórra bóta að stöðva þessa heimild á yfirfærslu fjárveitinga milli áramóta, og ég teldi að það yrði til stórra bóta í þeirri stöðu sem nú er að bæta enn í og afnema heimildina upp á 4% framúrkeyrslu stofnana á fjárlögum hvers árs. Ég hvet hv. þingmann til þess að beita sér fyrir því, formann fjárveitinganefndar, Guðbjart Hannesson, að afnema þá heimild einneginn. Það er alveg sýnt að það hefur verið misnotað og ég skal leggja honum fullt lið í því, ég heiti því, við það verk sem fjárlaganefndinni er ætlað við eftirlitshlutverk sitt við framkvæmd fjárlaga, að reka á eftir því að þær stofnanir sem þarna um ræðir ræki hlutverk sitt og haldi sig innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi hefur skammtað.

Það sem ég vil hins vegar benda á í þeirri umræðu sem hér fer fram er að í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki tekið á þeim þáttum sem við vitum að nú þegar eru komnir fram úr áætlun. Það verk bíður því fjárlaganefndarinnar og væntanlega þá í því sama formi sem alltaf hefur viðgengist, sem er það að fjáraukalögin koma inn seint á haustinu þegar allt er orðið um seinan, að bregðast við þeim vanda sem leiðir af útgjöldum umfram heimildir hjá einstökum stofnunum.