137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svar hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og ég held að við ættum að geta náð saman um að reyna að verja hag aldraðra og öryrkja sem allra, allra mest og að reyna að ná fjármagni annars staðar út úr rekstrinum. Það verður verkefni okkar í fjárlaganefnd og þeim nefndum sem vinna úr því frumvarpi sem hér er verið að reyna að bæta þar úr, sérstaklega á næstu árum því að það á eftir að skera verulega mikið meira niður. Sama gildir um fjárlagagerðina í heild.

Það sem ég vildi draga fram og mér finnst skipta miklu máli er að þegar menn eru að gagnrýna að það sé ekki tekið hressilega niður á rekstrinum þá bendi ég á að það er gert mjög myndarlega ef við náum þessum tveimur markmiðum. Það er útgangspunkturinn þegar rætt er við stofnanir að þær hafa ekki heimildir frá síðasta ári, það er ekki hluti af þeirri hagræðingu sem þær eiga að ná innan 20 milljarðanna. Hins vegar hafa þær ekki heimild til að fara fram úr eins og gert hefur verið á undanförnum árum og hefur nánast verið sjálfvirkt í fjárlögum. Ef við bara náum þessum markmiðum til viðbótar við þann sparnað sem ég vil taka undir að virkar mjög lítill í þessari fyrstu lotu, er það gríðarlega stór áfangi. Það er það sem ég vildi draga fram í ábendingu til hv. þingmanns að það má ekki gleyma þessum þáttum þegar við erum að ræða þetta fyrsta skref í ríkisfjármálum, á þessu fyrsta ári í löngu ferli um 150 milljarða niðurskurð. Á næsta ári munum við glíma við 56 milljarða, 43 milljarða til viðbótar á árinu 2011, sem á auðvitað eftir að útfæra í viðbótarplaggi og vonandi skýrslu sem kemur strax eftir helgina.

Það var þetta sem ég vildi draga fram. Ég treysti á að við náum samstöðu um að bæta fjárlagaferlið og ég veit að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafði beitt sér fyrir því sem varaformaður fjárlaganefndar og ég treysti á stuðning hans við að við reynum að fylgja þeim hugmyndum sem þar hafa komið fram um bætt fjárlagaferli, bæði með aukinni aðkomu þingsins og meiri aga og eftirliti í sambandi við rekstur stofnana ríkisins.