137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans. Hann er gamalreyndur í glímu við ríkisfjármálin. Ég kem ekki auga á það að þetta mál frekar en ýmis önnur sem á borðum okkar hafa verið alveg upp á síðkastið beri merki um sérstaka ákvarðanatökufælni en það verður auðvitað hver að meta fyrir sig. Sumir telja kannski að hér sé verið að taka óþarflega miklar ákvarðanir, eins og m.a. mátti ráða af máli hv. þingmanns.

Að skattahækkanir dragi úr hagvexti, jú, en það gerir niðurskurður ríkisútgjalda líka. Staðreyndin er sú að þegar það er t.d. skoðað að ná 10 milljarða árangri annars vegar með skattahækkunum en hins vegar með niðurskurði rekstrarútgjalda hefur niðurskurður rekstrarútgjalda umtalsvert meiri neikvæð hagvaxtaráhrif þannig að þessa blöndu er auðvitað mikilvægt að skoða. Í skýrslunni, sem er væntanleg, er ætlunin að reyna að fjalla talsvert um þetta gagnvart þeim leiðum sem þeir standa frammi fyrir, hvaða áhrif mismunandi nálganir á sviði tekjuhliðarinnar og útgjaldahliðarinnar hafa á hagvaxtarhorfur og hvernig þær koma út að öðru leyti.

Fjármögnunarþátturinn er erfiðasti hjallinn í stórframkvæmdum og almennt í fjárfestingum um þessar mundir og ýmis af þeim verkefnum sem hv. þingmaður nefndi eru fyrst og fremst í óvissu vegna fjármögnunarþáttarins. Það er sá hjalli sem mönnum gengur erfiðlega að stíga yfir um þessar mundir. Inn í það samhengi koma þó væntanlega viðræður við lífeyrissjóðina þar sem m.a. er rætt um möguleikana á að þeir fjármagni ýmsar stórar framkvæmdir.

Hagvaxtarspár eru að sjálfsögðu mikilli óvissu undirorpnar við svona aðstæður. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að framkvæmdirnar eða fjárfestingarnar eru þar einn þáttur en það er líka vaxtastigið. Það er t.d. mjög mikið undir í þeim efnum, hvernig gengur að lækka vexti og hversu lágir þeir munu geta orðið á næstu missirum. Það mun verða afgerandi breyta (Forseti hringir.) fyrir atvinnulífið og fyrir hagvaxtarhorfur.