137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[13:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, er tíðrætt um 20 milljarða hallann sem þarf að taka á á þessu ári. Maður gæti ímyndað sér að það sé meginviðfangsefni fjárlagagerðarinnar að huga að þeim 20 milljörðum sem hafa fallið til á þessu ári og það væri fróðlegt að fá sjónarmið hv. þm. Guðbjarts Hannessonar til þess hvort ekki megi leiða að því getum að aðhaldi í framkvæmd fjárlaga hafi verið mjög ábótavant á þessu ári og hvernig standi á því að hallinn hefur aukist verulega og hvers vegna menn telja að sá halli sem við vissum að fram undan væri, milli 150 og 160 milljarðar, á að geymast þangað til á næsta ári þegar menn boða mikinn niðurskurð, að sögn, í ríkisrekstrinum. En maður hlýtur líka að spyrja og mig langar að fá viðbrögð hv. þingmanns við því miðað við það hversu illa gengur að skera niður þessar örfáu krónur sem voru skornar niður í þessum mánuði, af hverju ættum við að trúa því að þessari ríkisstjórn takist að skera niður um 14 milljarða eins og þeir boða að muni gerast nú í haust? Það er afskaplega fátt sem bendir til þess að niðurskurðurinn verði með þeim hætti að viðunandi sé.

Það er ekki hægt að bjóða upp á það að stoppa í þetta gat með látlausum skattahækkunum þegar við vitum að möguleikar fólks til slíkra greiðslna hafa versnað og enn fremur er fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig ríkisstjórninni dettur í hug að lækka laun í stórum stíl en gera sér ekki grein fyrir því að með því dragast skatttekjur verulega saman. Og hvernig rímar þetta saman við allar hugleiðingar um hátekjuskatt og hverju hann muni skila?

Hins vegar langar mig til að fá viðbrögð hv. þingmanns við því hvernig hann hyggist afla þeirra gjaldeyristekna sem nauðsynlegar eru til að standa undir gígantískum skuldbindingum á erlendri grundu. Ekkert sem fram kemur í þjóðhagsspá bendir til þess að áætlanir um stóriðjuframkvæmdir sem þar eru fyrirhugaðar muni standast. Ég hef því áhuga á að vita hvernig hv. þingmaður hyggst afla tekna fyrir íslenska ríkið.