137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[13:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fara inn í þetta mál á þeim lokaorðum sem hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, endaði á að við höfum sett í fjárlögum ársins þrengri ramma og að reynt skuli að fylgja honum. Það er ekki að sjá í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að það sé verið að reyna að fylgja þeim ramma. Fjárlögin fyrir árið 2009 gerðu ráð fyrir að hallinn á fjárlögum væri 153 milljarðar. Samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að hallinn á fjárlögum ársins 2009 verði 173 milljarðar. Það sem er verið að gera með þessu frumvarpi er að það er verið að auka ríkisútgjöldin um 20 milljarða. Það er ekki þyngdur neinn niðurskurður á móti. Eins og þetta kemur fyrir þá er verið að bæta 20 milljörðum við tekjurnar sem á að ráðstafa til einhverra verkefna sem ekki eru leidd fram með neinum hætti. Þess vegna er spurt eftir því hvenær fjárlaganefndin fái þær tillögur til umfjöllunar sem kalla á ráðstöfun þess fjár sem hér er gerð tillaga um að innheimta af fyrirtækjum og heimilum landsins. Það er bráðnauðsynlegt að fara að fá það, ekki nema sú afstaða liggi fyrir, sem raunar kom fram frá fulltrúa fjármálaráðuneytisins á síðasta fundi fjárlaganefndar, að við mundum væntanlega fá ríkisreikninginn í hendur í október á komandi hausti og við færum þá að vinna í lokafjárlögum þess árs og væntanlega biðum við þá eftir fjáraukalagafrumvarpi í nóvember. Því spyr ég hv. formann fjárlaganefndar eftir því enn og aftur, því mér fannst þetta ekki koma nægilega vel fram í svörum hæstv. fjármálaráðherra áðan: Hvernig er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin haldi þann fjárlagagrunn upp á 153 milljarða í halla sem fjárlög ársins 2009 gerðu ráð fyrir?