137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[13:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sennilega rétt að ekki hefur komið fram skýringin á því af hverju menn hafa farið úr 153 upp í 173 milljarða kr. Það er vegna þess að í síðustu fjárlögum gleymdum við ábyrgð á láni sem þarf svo að gjaldfæra í tengslum við Seðlabankann sem er upp á 20 milljarða kr., (KÞJ: Verðbætur.) verðbætur sem ekki voru færðar þar. Þess vegna hafa menn ekki (KÞJ: Hvernig ætlið þið að mæta Atvinnuleysistryggingasjóði?) ég veit það, þess vegna hafa menn ekki reiknað með því að vinna það niður heldur að fjárlögin standi upp á 153 milljarða, taka þessa bókfærslu til viðbótar en að fjárlögin standi eins og þau eru, svo það sé á hreinu. Ástæðan fyrir því að fjárlögin hafa ekki staðið er fyrst og fremst tekjuþátturinn sem er að bregðast og Atvinnuleysistryggingasjóðurinn. Það eru aðallega þeir tveir þættir. Það er ekki verið að leyfa Landspítalanum að fara fram úr eða að það sé áætlun um að auka útgjöld á einstaka stofnanir. Þvert á móti er öllum gert að standast fjárlög. Það eru einungis tveir liðir, þ.e. tekjuhlutinn sem er endurreiknaður og hins vegar Atvinnuleysistryggingasjóðurinn sem tekinn er þarna inn í, sem kostuðu 25 milljarða leiðréttingu og það er verið að taka á henni með þeim aðgerðum sem hér eru sýndar.