137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fengum við enn eina sýnikennsluna í því hversu hæstv. fjármálaráðherra er góður áróðursmaður. Mælikvarðinn sem hæstv. ráðherra setti var að það hefðu aldrei verið veittar meiri upplýsingar, á þessum árstíma. Virðulegi forseti, hæstv. ráðherra var ekki að gera að gamni sínu. Hann talaði í fullri alvöru. Þingið fékk ekki upplýsingar um stöðu stofnana fyrir kosningar, fékk ekki upplýsingar um það hvernig gengi að framfylgja fjárlögum og við vorum að fara í kosningar sem eðli málsins samkvæmt hefðu átt að snúast fyrst og fremst um þessa hluti. Þingmönnum var neitað um þessar upplýsingar. Hvernig hæstv. ráðherra, (SJS: Nei.) — og einhver stuna heyrist frá ráðherrabekknum þegar þetta er nefnt. Virðulegi forseti. Þessar beiðnir stjórnarandstöðunnar eru allar til dokumenteraðar. Þær voru teknar upp í þingsal, þær voru teknar upp í þingnefnd, það var send beiðni til ráðuneytisins og því var ekki sinnt.

Varðandi hugmyndir hæstv. ráðherra um tekjujöfnun, sparnað og niðurskurð, væri alveg þess virði að fara yfir málflutninginn fyrir síðustu fjárlög hjá Vinstri grænum þar sem þeir fóru yfir það að það væri ekki nokkur einasta leið að reka stofnanir miðað við þau fjárlög sem voru í gangi og fundu þeim allt til foráttu. Um leið og þeir settust í ráðherrastólana fóru þeir hins vegar að framfylgja þessum fjárlögum sem þeir töldu að væru svo gersamlega fyrir neðan allar hellur og átu það ofan í sig eins og svo margt annað.