137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bendir réttilega á að lagt hafi verið upp í þann leiðangur fyrir árið í ár að standa áætlun og gerir þá játningu að það hafi ekki verið auðvelt verk fram undan, þvert á móti hafi augljóslega verið mjög erfitt að reyna að standa við þau áform sem þáverandi ríkisstjórn hélt fram. Ég held að það sé einmitt heila málið að menn verði að átta sig á því að það er verið að glíma við býsna stórt verkefni og til viðbótar við það verkefni var ákveðið að menn ætluðu ekki að flytja með sér fjárheimildir frá árinu á undan vegna þess að menn ætluðu að skoða rekstrarfjárstöðuna eingöngu út frá því sem útstreymi á peningum eða „cash flow-i“ sem verður á þessu ári.

Til breytinga var síðan það að menn komu með nýja tekjuspá sem við höfðum sett fram fyrir áramótin og atvinnuleysið skall á með meiri þunga, þ.e. atvinnuleysisbæturnar urðu hærri. Það eru einu breytingarnar og í heild yfir 20 milljarðar sem verið er að leiðrétta núna. Þess vegna kemur á óvart að hv. þingmaður skuli vera að reyna að ýja að því að hér sé um að kenna lausatökum á fjármálum og bið ég þá viðkomandi hv. þingmann að nefna þær stofnanir sem hann á við eða veit um að hafa verið með lausatök á fjármálum. Mér er ekki kunnugt um það. Þeir sem hafa komið inn í fjárlaganefndina eða við höfum haft samband við í þeirri vinnu sem hér hefur farið fram hafa þvert á móti þurft að grípa til mjög alvarlegra aðgerða og hafa gert það á fyrri hluta ársins líka og hafa einarðlega ætlað að standa áætlun.

Það sem einnig hefur komið fram í umræðunni var að ég var í fjárlaganefnd fyrstu tvö árin, datt út þegar ég gerðist þingforseti 1. febrúar sl. en þá var það þannig að þáverandi fjármálaráðherra, sem menn þekkja ágætlega, boðaði mig á fund á ýmsum stöðum gjarnan í sínu eigin kjördæmi til að kynna mér fjárlögin þótt ég væri í fjárlaganefnd, fyrr fékk ég engar tölur eða upplýsingar. Það er með allt öðrum hætti unnið að fjárlögunum núna og full ástæða til að halda því til haga.