137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði formaður fjárlaganefndar og hann spyr þann sem hér stendur og er að tala núna hvar sé farið fram úr hjá stofnunum í fjárlögum. (GuðbH: Lausatök.) Þessi lausatök hjá hæstv. ráðherrum þegar stofnanirnar halda sig ekki innan fjárlaga. Þetta vandamál hefur verið til staðar í áratugi. Við höfum náð nokkrum stofnunum með ærinni fyrirhöfn, miklum harmkvælum hjá stjórnarandstöðunni sem nú er komin í ríkisstjórn og það var lagt upp með það á þessu ári vegna þess að oft er þörf en nú er alger nauðsyn að halda stofnunum innan fjárlaga. Ég held að það væri nú nær og væri kjörið við þessar aðstæður að formaður fjárlaganefndar færi yfir þessa stöðu varðandi stofnanirnar. Ef hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, getur það ekki þá skal ég gera það eftir minni. Ég er hins vegar ekki í fjárlaganefnd en hef kynnt mér þetta nokkuð. En ég held að það væri æskilegast og alveg við hæfi að hv. formaður fjárlaganefndar færi yfir það.

Virðulegi forseti. Mér þykir algerlega ótrúlegt að hlusta á að menn séu hér að bera saman stöðu eins og núna miðað við árstíma í venjulegu árferði, árstíma eins og bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmaður eru að gera. Hvernig ætla menn að ná samstöðu um þetta verkefni ef menn eru í svona leikjum í þingsalnum? Hvernig ætla menn að gera það? Ég sé að hv. þingmaður er kominn í andsvar öðru sinni og það verður fróðlegt að sjá hvort hann fer yfir það hvaða stofnanir séu umfram á þessu ári.