137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem hann segir og ekki síst það að hér er risavaxið verkefni sem hlýtur að koma alls staðar við. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Helgi Hjörvar er sammála því mati mínu að æskilegt hefði verið að í frumvarpi því sem hér er lagt fram og á að taka til fjárhags ríkisins á árinu 2009 hefðu verið niðurskurðar- eða sparnaðartillögur sem vörðuðu fleiri ráðuneyti en er að finna í þessu plaggi. Í fljótu bragði sýnist mér að hér séu aðeins ákvæði sem varða verkefni á málefnasviði dómsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og síðan félags- og tryggingamálaráðuneytis og ég velti því fyrir mér og bið hv. þm. Helga Hjörvar að láta í ljós skoðun sína á því hvort ekki hefði verið eðlilegt eða æskilegt að í þessum ráðstöfunum, sem eiga að taka til þess árs sem nú er að líða, hefðu verið tillögur sem vörðuðu fleiri ráðuneyti því að augljóst er að það þarf að taka á alls staðar til að ná þeim árangri sem við erum öll sammála um að er nauðsynlegur. Það er kannski ekki sanngjarnt að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar en ég spyr hvort hann viti til þess að leitað hafi verið eftir sparnaðartillögum eða öðrum tillögum frá öðrum ráðuneytum en fram koma í þessu frumvarpi um sparnað á þessu ári.