137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. 6. þm. Suðurk. fyrir þann ferska tón sem hér kom fram, sérstaklega í lokin á hennar ræðu. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að Ísland á margvísleg og mikil tækifæri. Við erum hins vegar í erfiðri glímu við áföll sem yfir okkur hafa dunið og markmiðið í glímunni við þau hlýtur að vera það að nýta okkar tækifæri og möguleika sem eru ærnir. Það mun ekki standa okkur fyrir þrifum að við eigum ekki auðlindir og mannafla og bæði þekkingu og tækni til að nýta þær eftir því sem efnahagslegar aðstæður framast leyfa. Það er mikilvægt að hugsa þessa hluti alla í samhengi, þá glímu við ríkisfjármál og efnahagsmál sem við stöndum í og framtíðarmöguleika landsins. Þó að við þurfum að leggja á okkur tímabundnar byrðar þýðir það ekki að hér séu ekki áfram til staðar og vonandi fyrr en síðar forsendur fyrir kraftmikilli þróun öflugs velferðarsamfélags í landinu. Það er það sannarlega. En það mun auðvitað mjög miklu skipta hvernig okkur tekst til í viðureign við erfiðleikana næstu missirin og hversu djúp sveiflan verður ef svo má að orði komast. Allt sem við getum gert til að fleyta okkur í gegnum erfiðleikana þannig að það spilli ekki framtíðarmöguleikum er afar mikilvægt. Það er hugsun m.a. af því tagi sem liggur að baki því að kröfum um sparnað og aðhald í rekstri ríkisins er ekki jafnað út flatt á alla hluti. Það er annars vegar það að hlífa velferðarsamfélaginu eins og hægt er og það er að hlífa menntun og rannsóknum. Þess vegna eru niðurskurðar- og sparnaðartillögur bæði í þessu frumvarpi og í áætlun næsta árs því marki brenndar sem raun ber vitni. Það er alveg í anda þeirrar hugmyndafræði, ef svo má að orði komast, eða þeirrar hugsunar sem kom fram í máli hv. þingmanns.