137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að eyðileggja þann jákvæða blæ sem var kominn á umræðuna rétt áðan en verð samt að bregðast við. Við framsóknarmenn höfum verið gagnrýnir á ríkisstjórnina og ekki veitir af en við höfum verið málefnalegir í ræðum okkar og reynt að halda því þannig í alla staði og mér fannst því hálfpartinn illa vegið að formanni okkar rétt áðan.

Þetta blessaða fjárlagafrumvarp eða bandormur er í rauninni framhald af fjárlagagerðinni síðasta haust og kannski má segja að þetta sé í rauninni afrakstur fjárlaga ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins þar sem sú ríkisstjórn ákvað í miðri þenslunni og þvert á allt sem Samfylkingin hafði sagt um útgjaldaþenslu ríkisfjármála að hækka ríkisútgjöld um heil 20% og það frá kosningaári sem verður að viðurkennast að eru frekar þensluhvetjandi ef svo má að orði komast. Þetta gagnrýndum við framsóknarmenn mjög harkalega vegna þess að þá þegar voru blikur á lofti. Fjölmargir aðilar höfðu varað ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks við því að þetta gæti allt farið á versta veg. Seðlabankastjóri varaði ráðherra Samfylkingarinnar við því að þetta væri allt að fara á versta veg sem það og gerði. Mér varð hugsað til ræðu hv. þm. Þórs Saaris þar sem hann rakti réttilega að það hefði skort á aga í ríkisfjármálum allt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við þeim málaflokki upp úr 1991 er hann hóf samstarf með Alþýðuflokki. Svo hefði ekki verið tekið á þeim málum þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur unnu saman og þetta hafi allt saman farið úr böndunum í tíð síðustu ríkisstjórnar. En við vorum heiðarleg, um leið og við fórum í stjórnarandstöðu viðurkenndum við að gefið hefði verið of hraustlega í og gagnrýndum ríkisstjórnina fyrir þessa 20% hækkun á ríkisútgjöldum, jafnvel þó að það hafi verið mjög óvinsælt og það er allt í lagi að minnast á það.

Allan þann tíma sem hæstv. fjármálaráðherra gumar af að hafa staðið einn á bremsunni var sífelld hvatning frá vinstri grænum um einmitt útgjaldaaukningu og þegar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn juku útgjöldin voru vinstri grænir ekki með okkur framsóknarmönnum í því að gagnrýna að þarna væri heldur of mikið í lagt heldur gagnrýndu þeir að einhverjir hefðu þurft að fá meira. Þetta er sem sagt allt saman afleiðing af því að við erum að ræða viðbót við fjárlögin fyrir árið 2009 og maður fagnar því að sjálfsögðu að þetta mál sé loksins komið fram þó að fæðingin hafi verið afar erfið. En þetta er komið fram, þetta hefði mátt vera kjarnyrtara og hreinskiptara plagg en því miður verður manni ekki alltaf að ósk sinni með það. Verkefni nýrrar ríkisstjórnar, held ég, og kannski nýrra tíma á Alþingi vegna þess að hér er fjöldinn allur af nýjum þingmönnum, er að koma á aga í ríkisfjármálum. Það gengur ekki að ríkisstofnanir eða ráðuneyti geti farið langt fram úr fjárlögum ár eftir ár þannig að sá lagarammi sem veittur er standist engan veginn þegar til kastanna kemur. Þetta er kannski einn lítill angi af því að hér ríkir miklu frekar ráðherraræði en þingræði og það er eitt af því sem við framsóknarmenn viljum breyta og það ekki seinna en strax.

Áður en ég fer í efnisatriði frumvarpsins langar mig að gagnrýna framsetninguna en í henni finnst mér vera hálfsannleikur. Þarna vantar nokkrar mjög mikilsverðar staðreyndir. Eins og kom fram í orðum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar er verið að auka tekjuöflun ríkissjóðs um allt að 13 milljarða. Þar af er gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður þurfi um 7 milljarða en það gleymist einfaldlega að gera ráð fyrir því að þetta er tekjuliður sem fer út strax aftur vegna þess að hér er eingöngu verið að mæta aukinni þörf af því að hér er stóraukið atvinnuleysi og Atvinnuleysistryggingasjóður verður væntanlega tómur eða hefði orðið tómur strax í haust, um mánaðamótin september/október. Það vantar í þetta. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra en fékk því miður ekki nægilega skýr svör við því, af hverju það kemur ekki fram á bls. 15 þar sem talað er um tekjuáhrifin í milljörðum króna hvernig eigi að sækja þessa 13 milljarða. Og hækkanir á áfengi og tóbaki eða hinir svokölluðu óhollustuskattar, það er nefnilega talið að vísitöluáhrifin af þeim séu um 0,5% sem þýðir í rauninni að skuldir heimilanna hækka um 8 milljarða. Ég benti á það og hæstv. fjármálaráðherra var sama sinnis að þessi vísitöluáhrif tilfærslu á virðisaukaskatti væru 0,35% en ættu að vera 0,25. Ég hef reyndar aðeins kynnt mér þetta og ég held að við þurfum að fara betur í það hvort það séu ekki 0,35% frekar en 0,25%. Ég ætlast ekki til að hæstv. fjármálaráðherra svari því en hvað sem öðru líður erum við að tala um hækkun á skuldum heimila landsins um 12–13 milljarða. Þá erum við farin að bíta í afturendann á okkur allverulega. Svo finnst mér líka vanta inn í þetta plagg, þetta frumvarp þær stofnanir sem hafa keyrt, margar hverjar, allt of langt fram úr fjárlögum. Hér vantar sem sagt grundvallarupplýsingar og ég held, hvort sem málið fer til efnahags- og skattanefndar eða fjárlaganefndar þar sem ég á sæti, að þetta muni væntanlega verða leiðrétt og allt verða uppi á borðum vegna þess að við ætlum að hafa allt uppi á borðunum, ekki rétt, hæstv. fjármálaráðherra?

Við framsóknarmenn höfum talað um 20% leiðréttingu á skuldum heimilanna. Þetta tengist kannski því sem ég nefndi áðan að við getum ekki endalaust velt byrðunum á fjölskyldur og heimili landsins. Þess vegna langar mig líka að gagnrýna það sem segir í athugasemdum við frumvarpið sem ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi kannski fengið að skrifa einn og sér, ég skal ekki fullyrða um það réttara sagt, en þar segir: „Fjöldi heimila hafði einnig fyrir tilstilli bankanna reist sér hurðarás um öxl og bundið sér illbærilega skuldabagga.“

Mér finnst þetta vera frekar neikvætt. Ég held að hvað sem öðru líður séu bankarnir ekki upphaf og orsök alls hins slæma sem hefur farið fram í íslensku efnahagslífi. Við megum ekki gleyma því að Samfylkingin hefur verið við völd í rúmlega tvö ár á þeim tíma sem grípa átti til aðgerða til að afstýra bankahruninu, á meðan á bankahruninu stóð og svo í rauninni í öllu klúðrinu sem átti sér stað eftir bankahrunið. Og svo maður sé kannski svolítið jákvæður þá er þetta frumvarp, þó að það megi gagnrýna margt í því, það fyrsta jákvæða sem maður sér vegna þess að þetta sýnir þó fólki svart á hvítu hvernig staðan er. Það er óvissan fyrir heimilin og óvissan fyrir fyrirtækin sem við þurfum með einum eða öðrum hætti að eyða og þetta frumvarp gerir það vissu leyti en því miður ekki á allan hátt. Það er alveg öruggt og við vitum það að í næsta fjáraukalagafrumvarpi, sem væntanlega verður lagt fram í haust, eftir örfáa mánuði, munum við sjá fram á enn meiri og ríkulegri niðurskurð og það hefði að mínu viti verið betra að koma strax fram með það allt saman.

Svo verð ég að segja fyrir mína parta að ég hefði ekki trúað því fyrir fram að þeir sem hafa gegnum tíðina gagnrýnt öll framlög til sjúklinga, til elli- og örorkulífeyrisþega, ætli núna að ráðast á þann hóp umfram aðra og taka af þeim tekjur. Þá veltir maður fyrir því sér hvort það hafi raunverulega verið inneign fyrir öllum þeim stóru orðum sem bæði hæstv. fjármálaráðherra og fleiri hafa látið frá sér fara þegar það virðist vera svigrúm til að ráðast á þennan hóp. Við skulum hafa það í huga að elli- og örorkulífeyrisþegar eru hópur þar sem hafa margir hafa glatað miklu af sínum sparnaði. Þetta er ekki hópurinn sem hefur hvað breiðust bökin.

Ég spurði einnig hæstv. fjármálaráðherra eftir ræðu hans áðan í frekar stuttum andsvörum um hvaða vegaframkvæmdir væri að ræða þar skera á niður um 3,5 milljarða og svo er talað um aðrar framkvæmdir upp á 925 millj. Þetta er ekki skýrt út í frumvarpinu enda svaraði hæstv. fjármálaráðherra því á þann veg að það ætti eftir að koma í ljós hvar það yrði. Þetta skiptir máli og það hlýtur að liggja fyrir og geta legið fyrir núna eftir að við höfum horft fram á allar þessar tafir og beðið eftir þessu frumvarpi hvaða framkvæmdir á að fara í. Þetta skiptir öllu máli fyrir sveitarfélögin, þetta skiptir öllu máli fyrir landsbyggðina sem á mjög undir högg að sækja í þessu árferði að menn viti hvort fara eigi í þær vegaframkvæmdir sem hafa verið ráðgerðar á því svæði.

Svo er líka eitt í þessu sem við verðum að horfast í augu við. Við fengum í hendur í gær Icesave-samningana sem reyndust í rauninni ekki samningar heldur skuldabréf, eitthvert svæsnasta skuldabréf sem ég hef séð á ævinni, um að við skuldum mörg hundruð milljarða. Verðum við ekki í svona plaggi að gera ráð fyrir því, verðum við ekki að koma fram með stöðuna og gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin ætli sér (Forseti hringir.) að skuldbinda þjóðina mörg ár fram í tímann jafnvel þó að það eigi að vera einhver sjö ára frestur á greiðslunni? Það eru fjölmörg atriði sem (Forseti hringir.) ég hef ekki komist yfir og forseti er orðinn óþreyjufullur en mér mun gefast tækifæri til þess í síðari ræðu minni.