137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru erfiðir tímar sem við lifum á þessum missirum og kannski það eina sem er gagnlegt og vekur okkur tilhlökkun sem hér erum í þingsalnum er að við höfum tækifæri til að breyta til batnaðar og við þurfum að gera það á mörgum sviðum. Við þurfum að vinda ofan af þeirri útþenslu sem átt hefur sér stað í ríkisbúskapnum á liðnum árum sem hefur lýst sér í því að stofnanir hafa verið settar á fót sem kannski hafa ekki alltaf fylgt skýrri pólitískri stefnumörkun um forgangsröðun í þágu almannahagsmuna í þessu landi.

Ég tek undir það með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og vísa til fyrri orða minna að ég held að það séu allir flokkar að einhverju leyti sem átt hafa sæti á Alþingi undir þá sök seldir að hafa farið fram úr sér í aðdraganda kosninga og sérstaklega með því að fara fram úr fjárlögum svo hleypur á milljörðum króna. Það hefur verið tekið mjög vægt á þeim lögbrotum sem því fylgja, menn eiga ekki að komast upp með að fara fram úr fjárlögum svo hlaupi á milljörðum króna á hverju ári og það er einbeittur ásetningur stjórnarflokkanna að snúa af þeirri braut agaleysis í ríkisfjármálum sem menn hafa gert sig seka um hér á liðnum árum. Annað er bara ávísun á enn þyngri búsifjar fyrir almenning í þessu landi. Ég fagna þeirri liðveislu sem fram kemur í orðum hv. þingmanns við þessa fyrirætlan.