137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, bandorm, bandorm sem er ekki sérstaklega auðskiljanlegur eða skemmtilegur aflestrar en það eru smáatriði miðað við hvaða ótíðindi hann boðar, blessaður. Nú finnst mér vera orðið helst til fámennt á ráðherrabekkjunum og sakna þess að sjá ekki hæstv. fjármálaráðherra í salnum, ef hann er einhvers staðar nálægt — nei, hann er þarna, blessaður.

Ég get tekið undir það með fleirum sem hér hafa talað að þetta er ekki auðvelt verkefni sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir núna. Það þarf að brúa stórt gat sem hrun íslensks efnahagslífs á haustmánuðum hefur skilið eftir. Það skiptir mjög miklu máli hvernig það er gert vegna þess að eins og skrýtlan í Morgunblaðinu lýsti svo vel í morgun eru nokkrar aðferðir til við þetta.

Skrýtlan, fyrir þá sem ekki sáu hana, var þannig að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir var að mjólka og var að leita að spenunum á mjólkurkúnni sem hún var að mjólka, en það var óvart þannig að kýrin sú var eingöngu beinagrind. Mér finnst þetta sýna í hnotskurn hvað ríkisstjórnin er að gera þessa dagana, það er verið að kreista seinustu dropana úr skattgreiðendum þessa lands. Þar með er verið að drepa niður alla skattstofna í staðinn fyrir að fara aðra leið sem mögulega er fær, og við sjálfstæðismenn höfum verið að tala fyrir, og það er að blása lífi í skattstofnana að nýju, koma atvinnulífinu í gang, setja það í forgang og styrkja þannig og auka skatttekjur ríkissjóðs til lengri tíma.

Það er nefnilega það eina sem getur komið okkur út úr þessu til langframa. Við getum jú fengið tímabundnar tekjur og lægri útgjöld ríkisins með þeirri leið sem ríkisstjórnin leggur hér til en til framtíðar litið byggjum við þjóðfélagið ekki upp, okkar góða samfélag, án þess að koma atvinnulífinu aftur af stað, fjölga störfum, fjölga tækifærum, stækka kökuna og koma lífi í atvinnulífið.

Nú hætti ég eflaust á að fá hæstv. fjármálaráðherra upp í andsvar við mig þar sem hann fer að tala um valdatíð Sjálfstæðisflokksins þar sem ofurkapp var lagt á að gera hitt og þetta sem honum er svo tamt að tala um, en ég tek sénsinn á því vegna þess að þetta snýst að stórum hluta um hugmyndafræði og þetta snýst um nálgun.

Ég get tekið Reykjavíkurborg sem gott dæmi um það. Þegar Reykjavíkurborg stóð frammi fyrir sama verkefni og við stöndum frammi fyrir núna á vegum ríkisins, að ná saman fjárhagsáætlun, hver var þá nálgunin hjá borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og hennar fólki, sem — ég vil líka geta þess — gerði þetta í samráði allra flokka í borgarstjórn? Þá var leitað leiða til þess að skera fitulag sem hafði myndast í samráði við stjórnendur borgarinnar þar sem fundnar voru tillögur, og það var gert með tvennt að leiðarljósi. Í fyrsta lagi var ákveðið að auka ekki álögur á borgarana. Af hverju? Vegna þess að borgararnir mega ekki við því um þessar mundir, hvort sem það eru íbúar í Reykjavíkurborg eða almenningur í landinu. Við megum hreinlega ekki við aukinni skattheimtu og þess vegna er það grátlegt að horfa upp á það og sjá það í þessum tillögum ríkisstjórnarinnar að hér er áherslan nær eingöngu á tekjuöflun en ekki á að leita hagræðis í ríkisútgjöldum.

Hitt atriðið sem borgarstjóri Reykjavíkur lagði áherslu á var að skerða ekki grunnþjónustu. Það er það sem lagt var upp með og með því að fara þessar leiðir, að skera niður með aðstoð og fulltingi stjórnenda í borginni náðist sparnaður sem nam mun meiru en því að hækka útsvarið upp í topp eins og var að sjálfsögðu leiðin sem vinstri mennirnir í minni hlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur börðust fyrir.

Hér er einmitt verið að fara þessa leið. Það er verið að auka álögur. Ég geri ekki lítið úr því að við þurfum að fá meiri tekjur en þetta er einfaldlega ekki leiðin. Við sjáum ef við horfum á þær tillögur sem verið er að leggja til að þær gera ekkert annað en að draga mátt úr þeim sem þó eru eftir standandi sem skattborgarar hér í landinu, millistéttin. Hátekjuskattur, sem kallaður er, á yfir 700 þús. kr. tekjur, í mínum huga er það ekki hátekjuskattur. Ég hljóma kannski sem talsmaður auðvaldsins — svo ég grípi til orðfæris hæstv. fjármálaráðherra — þegar ég segi það, en ef við horfum til þess, segjum að það sé ein fyrirvinna, 700 þús. kr. tekjur fyrir fjögra manna vísitölufjölskyldu þar sem lánin hafa hækkað og tekjur hafa lækkað, ég er ekki viss um að það heimili eigi eftir að ná léttar endum saman eftir það. Þetta er vondur skattur, hann skapar fleiri vandamál en hann leysir. Við erum blessunarlega búin að losna hér við jaðarskattinn margnefnda, hann hefur ekki sést hér í háa herrans tíð, nú er hann kominn aftur. Flækjustigið verður endalaust og ég vek athygli á því að þegar þessi skattur verður gerður upp endanlega, það verður við álagningu næsta sumar, ef tekjur breytast, sem því miður við getum alveg gert ráð fyrir að verði algengt í núverandi árferði, mun þetta endanlega gera út af við áætlanagerð fólks þegar það kemur nú í þokkabót við næstu álagningu tékki, rukkun frá skattinum sem fólk hafði ekki endilega búist við og gert ráð fyrir í áætlunum sínum.

Flækjustigið er því eitt, hámarkið er annað og jaðaráhrifin eru það þriðja sem ég geri athugasemd við í sambandi við þetta tímabundna 8% álag á hærri tekjur eins og þeir kalla það. Ég ætla að leyfa mér að hafa efasemdir um að það álag verði tímabundið þó svo að það sé það eina sem ég get verið ánægð með, að það standi þó tímabundið.

Það sem ég vildi gera að aðalumtalsefni mínu hér er lítið atriði sem hefur ekki fengið mesta athyglina í umræðunum um þessi skattamál. Það er breytingar í 6. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að settur verði á 5% afdráttarskattur á vexti sem greiddir eru úr landi. Í minnisblaði sem okkur barst frá fjármálaráðherra — sem er reyndar til þingflokka stjórnarflokkanna — þar sem er verið að útlista þessar tillögur, segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt gildandi lögum eru vextir sem greiddir eru úr landi til aðila sem eru með takmarkaða skattskyldu hér á landi skattfrjálsir. Í frumvarpinu er lagt til að þetta skattfrelsi verði afnumið og á vextina lagður 15% skattur. Óljóst er um tekjuáhrif þessara breytinga á þessu stigi.“

Þetta er gamall kunningi og ég verð að segja að ég er mjög hissa að sjá hann dúkka upp hér svo skjótt eftir að við í efnahags- og skattanefnd á síðasta þingi börðumst mikið fyrir því að þetta ákvæði, sem var þá í frumvarpi frá ríkisstjórninni, næði ekki fram að ganga. Vegna þess að þegar þetta var lagt til á sínum tíma komu á fund hv. efnahags- og skattanefndar umsagnaraðilar alls staðar að úr íslensku efnahagslífi og voru einróma sammála um að þetta væri stórhættulegt mál og ekki síst í núverandi árferði þar sem íslensk fyrirtæki, sérstaklega voru nefnd til sögunnar orkufyrirtækin, væru að leita sér fjármögnunar á erlendum lánamörkuðum og að þetta gæti orðið þeim mjög til trafala í þeim efnum.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr framhaldsnefndaráliti efnahags- og skattanefndar og ég tek það fram að nefndin var einhuga að baki þessu nefndaráliti.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að framangreindar athugasemdir gefi tilefni til að skoða betur hver áhrif 1. gr. frumvarpsins“ — ég skýt hér inn í að það er sú grein sem hér um ræðir — „geti haft á aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé. Nefndin leggur áherslu á að þegar að loknum næstu kosningum verði, með hliðsjón af tilgangi greinarinnar, haldið áfram að leita leiða sem tryggt geta íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í vaxtagreiðslum úr landi. Nefndin ræddi hvort fresta ætti gildistöku greinarinnar eða fella hana brott. Nefndin telur í ljósi núverandi efnahagsaðstæðna að fyrrnefndi kosturinn geti raskað möguleikum íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar og leggur því til að 1. gr. falli brott ásamt tengdum greinum.“

Nefndin komst sem sagt að niðurstöðu um það, eftir að hafa skoðað málið og metið það frá öllum hliðum, hlýtt á alla umsagnaraðila, að þetta væri óráð, þetta hefði meiri skaða í för með sér en réttlætanlegt væri að leggja til að leggja á íslenskt atvinnulíf. Það sem meira er að í vinnu nefndarinnar voru ýmsar röksemdir sem fjármálaráðuneytið og fulltrúar þess, eða þeir sem komu fyrir nefndina, og ýmsar fullyrðingar sem var að finna í greinargerð með frumvarpinu voru hraktar. Nefndin fékk ítarleg gögn sem ég hef hérna, bæði frá orkufyrirtækjunum, frá endurskoðunarfyrirtækjum, frá aðilum vinnumarkaðarins og fleiri aðilum sem komu á fund nefndarinnar sem beinlínis hröktu þær staðreyndir sem þáverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, sem einkum talaði fyrir hönd ráðuneytisins um þetta atriði — sem sagt umsagnaraðilar leiðréttu þetta.

Í nefndarálitinu segir að það hafi átt að leita leiða sem geta tryggt íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í vaxtagreiðslum úr landi. Þá hefði ég haldið að í millitíðinni, fyrst þetta ákvæði kemur hér aftur, hefði verið leitað samráðs við þessa aðila um það hvernig hægt væri að koma þessu ákvæði þannig fyrir að það gæti náð þeim markmiðum, án þess þó að valda íslensku efnahagslífi skaða eins og varað er við og varað var við í nefndinni, en ég tek eftir því að greinin er — ég vona að ég fari rétt með, ég gat ekki betur séð en að greinin sé algjörlega óbreytt. Það er meira að segja þannig að þar eru enn sömu fullyrðingar og voru hraktar á nefndarfundunum.

Nú kallar hæstv. fjármálaráðherra hér fram í og segir að það sé ekki rétt sem ég er að segja þannig að ég vona að hann leiðrétti það þá. En ég veit líka að það hefur ekki verið haft neitt samráð við þá aðila sem höfðu af þessu mestar áhyggjur. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í ræðu sinni, sem gladdi mig, hann talaði um að við yrðum að huga vel að atvinnulífinu og við yrðum að passa upp á að skattleggja það ekki of mikið vegna þess að það væri það sem mundi koma okkur út úr þessum vandræðum.

Svo sér maður atriði sem beinlínis hefur verið varað við og ef ég les hérna upp úr niðurlagi umsagnar frá Geysi Green við fyrra frumvarp segja þeir, með leyfi forseta:

„Það er því vart á það bætandi að skaða íslensk fyrirtæki enn frekar en nú er orðið með því beinlínis að stuðla að því að þrengja lánamöguleika íslenskra fyrirtækja sem og að hækka enn frekar vaxtakjör erlendra lána.

Að því er varðar starfsemi Geysis Green Energy og dótturfélaga þess byggir starfsemi félaganna á nýsköpun og þekkingu á nýtingu orkuauðlinda Íslendinga sem getur átt þátt í því að fleyta okkur inn í nýtt hagvaxtarskeið.“

Þetta er lykilatriði, frú forseti, og þess vegna finnst mér með ólíkindum að sjá þetta dúkka hér upp aftur. Ég leyfi mér að efast um að það muni ná tilgangi sínum vegna þess að skattstofninn mun annaðhvort líða undir lok vegna þess að fyrirtækin fara á hausinn eða þetta mun flytjast eitthvert í burtu.

Nú er tími minn á enda, því miður, ég hafði rétt byrjað að tæpa á því sem ég ætlaði að koma hér að en læt máli mínu lokið og mun ræða þau atriði við seinna tækifæri.