137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Öfugt við hv. þingmann er ég ekkert feiminn við að tjá mig um hvað ég tel vera háar tekjur. (Gripið fram í: … í bönkunum.) Nei, það held ég ekki, ég tel 700 þús. kr. vera háar tekjur og tel þá sem eru svo lánsamir að hafa fulla vinnu og góðar tekjur vera í allt annarri og betri stöðu en margir aðrir um þessar mundir. Við skulum t.d. bera saman og hugleiða stöðu vel launaðs manns í fjármálakerfinu eða tveggja manna sem unnu hlið við hlið fram á haustið og báðir með 900 þús. kr. tekjur á mánuði. Annar þeirra er án atvinnu í dag með 155 þús. kr. eða hvað það er til að framfleyta sér og hinn heldur sínum 900 þús. kr. Ég tel að það sé ekki ósanngjarnt að sá sem er svo heppinn að halda fullri atvinnu og góðum launum leggi kannski 16 þús. kr. á mánuði til samneyslunnar og m.a. til að fjármagna hallann á Atvinnuleysistryggingasjóði sem núna sér um framfærslu félaga hans sem missti vinnuna. Ég held að við verðum ósköp einfaldlega að hugsa þetta svona. Við höfum ekki aðra en okkur sjálf til að dreifa á byrðunum og þá verðum við að reyna að gera það með félagslega sanngjörnum og réttlátum hætti.

Varðandi afdráttarskattinn þá tel ég mikilvægt að vinna að því að sú kerfisbreyting komist á. Þetta er gert nánast alls staðar í löndunum í kringum okkur og ekki vansalaust að við skulum ekki hafa lagfært okkar skattkerfi á undanförnum árum að þessu leyti eins og mörgum öðrum, t.d. eins og það mér liggur við að kalla hneyksli að hér skyldu CFC-reglur ekki vera komnar til framkvæmda fyrir löngu og hefðu betur verið það á meðan fé streymdi héðan til aflandssvæðanna í gegnum dótturfélög og skúffufélög sem hefði mátt skattleggja með móðurfélögunum heima ef slíkar reglur, alþjóðlega viðurkenndar reglur sem víðast hvar eru komnar, hefðu verið við lýði hér á landi á umliðnum árum. Þetta er liður í því að þróa skattkerfi okkar og koma því í samræmt horf við það sem gerist í sambærilegum löndum.