137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú liggur þetta frumvarp fyrir til 1. umr. en eins og fram hefur komið við umræðuna var það fyrst lagt fram á þingi í gærkvöldi þannig að þingmenn hafa haft takmarkaða möguleika á því að kynna sér efni þess, ekki síst vegna þess að flest okkar hv. þingmanna voru kannski í gær með hugann við sífellt verri fréttir af málefnum Icesave.

Ég ætla í þessari ræðu minni fyrst og fremst að drepa á nokkur atriði sem mér finnst umhugsunarverð varðandi efnisatriði frumvarpsins. Almennt séð er ég eindregið sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, að leið okkar út úr þeim þrengingum sem við erum í, leiðin til að auka tekjur bæði hjá einstaklingum og ríkinu er auðvitað að efla atvinnulífið, stuðla að því að það nái að vaxa og dafna, ekki að keppast við að skipta köku sem annaðhvort stendur í stað eða minnkar. Þess vegna verðum við að huga að því þegar við grípum til aðgerða af þessu tagi hvort þær eru til þess fallnar að stækka kökuna eða hvort það er bara verið að skipta henni með öðrum hætti en þegar er gert. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að atriði í þessu frumvarpi séu til þess fallin að hamla því að kakan stækki, hamla því að það verði vöxtur í atvinnulífinu. Það tengist auðvitað fleiri atriðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur annaðhvort komið í framkvæmd eða hefur áform um, en ég óttast að sú ríkisstjórn sem nú situr sé og verði uppteknari við það að reyna að sneiða kökuna á annan hátt heldur en að skapa aðstæður til þess að hún geti stækkað. En nóg um það. Ég ætla að snúa mér að efnisatriðum þessa frumvarps.

Í fyrsta lagi vekur auðvitað athygli að langstærsti liðurinn sem hér er fjallað um sem á að loka því u.þ.b. 20 milljarða gati sem ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru sammála um að loka þurfi á þessu ári, langstærsti hlutinn á að koma með hækkun tryggingagjalds. Nú ætla ég ekki að mótmæla því að tryggingagjaldi er ætlað að standa undir atvinnuleysistryggingum m.a. og tryggingagjaldið stendur ekki undir þeim eins og er. Atvinnuleysi hefur vaxið miklu meira en nokkurn óraði fyrir, fyrir segjum bara ári síðan, þannig að þar eru breyttar forsendur. Ég ætla því ekki að hafna hugmyndinni um að það sé rétt að hækka tryggingagjaldið eitthvað. Mér finnst hins vegar í almennum athugasemdum við frumvarpið vera skautað svolítið létt yfir hugsanlegar afleiðingar þess að hækka tryggingagjaldið því að auðvitað eru það peningar sem koma einhvers staðar frá. Tryggingagjald er greitt af launagreiðendum og miðast við þau laun sem þeir greiða þannig að hækkun á tryggingagjaldi hækkar launakostnað fyrirtækja, hækkar kostnaðinn fyrir fyrirtæki af því að hafa fólk í vinnu, það er augljóst. Það verður dýrara fyrir fyrirtæki að ráða nýja starfsmenn eða halda í þá starfsmenn sem fyrir eru með því að hækka tryggingagjaldið. Ég held að hv. efnahags- og skattanefnd verði að fara vel yfir það með sérfræðingum hvaða áætluð áhrif þetta kunni að hafa á atvinnulífið í heild og atvinnustig í landinu, því að reynsla ekki bara okkar heldur annarra þjóða segir okkur að því hærri launatengd gjöld sem lögð eru á því meiri tregða er hjá fyrirtækjum að ráða nýtt fólk eða halda í það sem fyrir er. En nóg um þetta atriði. Þetta er auðvitað stærsti einstaki liðurinn í þessu og þó að ekki sé fjallað um það í frumvarpinu er gert ráð fyrir því á þessu ári að ná fram ýmsum öðrum útgjaldasparandi markmiðum eins og í rekstri.

Hæstv. fjármálaráðherra vék að því í andsvari og það gerði hv. þm. Helgi Hjörvar líka áðan að í þessu frumvarpi væri ekki verið að fjalla um sparnaðarráðstafanir sem krefðust lagabreytinga heldur sneru að framkvæmd fjárlaga. Sá rekstrarsparnaður er samkvæmt yfirliti sem birtist í athugasemdum við frumvarpið áætlaður 1,8 milljarðar á þessu ári. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra tveggja spurninga í þessu sambandi, annars vegar og kannski fyrst og fremst: Hversu langt eru þessar almennu aðhaldsaðgerðir sem þarna er vísað til komnar og þá um leið, er til einhver mælikvarði á það hvaða árangur hefur náðst? Nú er liðið fram á mitt árið, hæstv. fjármálaráðherra tók við embætti sínu 1. febrúar sl. ásamt flestum ráðherrum núverandi ríkisstjórnar og allan þann tíma hefur legið fyrir að spara þyrfti meira en gildandi fjárlög gerðu ráð fyrir. Ég held að öllum hafi verið ljóst snemma á þessu ári að forsendur fjárlaganna sem samþykkt voru fyrir jólin mundu ekki halda og þá spyr ég: Eru menn komnir eitthvað áleiðis í að spara þessar 1.800 millj.? Hvernig gengur sá sparnaður?

Annað sem vegur þungt er auðvitað tilfærslukostnaðurinn sem gert er ráð fyrir að dragist saman um rúma 3 milljarða og viðhalds- og stofnkostnaður sem á að dragast saman um 4,4 milljarða, vegaframkvæmdir vega þar þyngst. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég held að öllum sé ljóst að við höfum farið of geyst í sambandi við tilfærslukostnaðinn. Þar hafa verið of háar upphæðir miðað við það sem við getum staðið undir og því er ekki óeðlilegt að þar sé leitað leiða til að draga niður, þó að mér finnist afar sorglegt að verið sé að slá af þær breytingar sem við gerðum á árinu 2008 sem komu mjög til móts við kröfur bæði aldraðra og öryrkja og mér finnst vont að við þurfum að standa í þeim sporum. Hins vegar höfum við í þeim efnum, í tilfærsluliðnum jafnt og í almennum rekstri ríkisins, farið of geyst á undanförnum árum. Ég ætla ekki að víkjast undan ábyrgð að hafa tekið þátt í því þó að ég hafi af og til haft uppi varnaðarorð í því sambandi. En á góðæristímanum var rekstur ríkisins og útgjöld, m.a. til velferðarmála, aukinn meira en hægt er að standa undir þegar kreppir að. Menn voru því miður of bjartsýnir á að það mikla tekjustreymi sem kom inn til ríkisins á góðæristímanum mundi vara að eilífu og þess vegna voru útgjöld ríkisins spennt upp meira en nokkurt vit var í.

Ef ég fer mjög fljótt yfir sögu, vegna þess að ræðutíminn er takmarkaður, um þau atriði sem ég tel að hv. efnahags- og skattanefnd þurfi að fjalla sérstaklega um í störfum sínum þá velti ég fyrir mér áhrifum breytinga á virðisaukaskattskerfinu. Það er augljóst að þetta mun leiða til hærra vöruverðs og hafa áhrif á vísitölu. Ég velti fyrir mér hvort þetta muni hugsanlega ýta undir hækkanir á fleiri vörutegundum en hér er fjallað um, menn þurfa að skoða það vandlega. Ég vek athygli á því að ekki er hægt að lesa annað út úr frumvarpinu en að verið sé að hækka virðisaukaskatt upp í 24,5% ekki bara á þeim vörum sem áður voru með 24,5%, þ.e. fyrir 1. mars 2007, heldur má ætla að einnig sé um að ræða einhverjar sykurvörur sem voru í 14% fyrir 2007. Það þarf að fara yfir þetta og meta áhrifin. Ég held að víða í atvinnulífinu hafi menn nokkrar áhyggjur af þessu þó að þetta séu ekki stórar upphæðir í heildarsamhenginu.

Annað atriði sem rétt er að fara yfir er matið á því hvaða áhrif hið svokallaða tímabundna álag á tekjuskatt hefur hjá einstaklingum. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir fór ágætlega yfir hugsanleg neikvæð áhrif af slíkri skattlagningu. Þetta þarf að skoða út frá því að hvaða leyti þetta flækir skattaframkvæmdina, veldur jaðaráhrifum og þess háttar. Eins leyfi ég mér, að lítt athuguðu máli reyndar, að efast um tekjuáætlunina í þessu sambandi. Gert er ráð fyrir að þessi breyting, þ.e. leggja 8% aukaskatt ofan á þá sem eru með meira en 700 þúsund muni geta skilað 4 milljörðum á ársgrundvelli. Ég leyfi mér að efast um það og þar af leiðandi á ég ekki von á því að þessi breyting muni skila 2 milljörðum á þessu ári eins og greint er frá í frumvarpinu. Ég minnist þess að fyrir kosningar, fyrir 2–3 mánuðum var hæstv. fjármálaráðherra að fjalla um mál af þessu tagi í viðtölum og skaut þá á það og byggði það reyndar á gömlum tölum að hátekjuskattur í tveimur þrepum, þ.e. sérstakt álag ofan á þá sem væru með 500 þúsund og svo enn meira álag ofan á þá sem væru með 700 þúsund, mundi skila, ef ég man rétt, 3,5–4 milljörðum. Ef ég man rétt voru þær tölur byggðar á tekjuforsendum sem lágu fyrir á síðasta ári og ég held að tekjurnar hafi lækkað, að við séum að tala um lægri skattstofn en var á þeim tíma. Sjálfur skaut ég á þetta einhvern tíma fyrir kosningar og fann út að þær breytingar sem hæstv. fjármálaráðherra hafði kynnt, annars vegar um 3% álag ofan á þá sem væru með 500 þúsund og síðan 8% á þá sem væru með 700 þúsund og meira, ég skaut á það eftir einhverri þumalputtareikniaðferð að slík breyting gæti í mesta lagi skilað 2,7–2,8 milljörðum á ársgrundvelli. Ég hef auðvitað engar forsendur til að meta þetta, ekki með sama hætti og fjármálaráðuneytið, en minnist þess að fyrir kosningar spurði ég hæstv. fjármálaráðherra að þessu í skriflegri fyrirspurn og fjármálaráðuneytið taldi ekki ástæðu til að svara því á þeirri forsendu að engin áform um sérstakan hátekjuskatt lægju fyrir í ráðuneytinu. Nóg um það.

Þrátt fyrir að allir styðji það í sjálfu sér að aðgerðir til að efla skatteftirlit verði auknar og bættar, þá hef ég alltaf ákveðna fyrirvara á þegar menn eru að reikna sér einhverjar tekjur út úr því. Ég held að það séu mjög ótryggar tekjur og erfitt að taka það inn í útreikning af þessu tagi. Og varðandi áhrif af skattlagningu vaxta til erlendra aðila þá fjallaði hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir ágætlega um það.

En til að ljúka máli mínu og þar sem ég er að renna út á tíma, vildi ég beina nokkrum litlum spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra sem er í salnum um þær breytingar sem fjalla um málefnasvið ráðuneytis hennar. Í fyrsta lagi um hámarkið sem á að setja á gjafsóknarfjárhæðir í einkamálum. Ég velti fyrir mér hvort einhverjar fyrirmyndir eru að slíku hámarki. Ég velti fyrir mér hvort aðrar breytingar séu hugsaðar á gjafsóknarfyrirkomulaginu og ég velti því líka fyrir mér hvort mikil samstaða sé um þetta í stjórnarflokkunum, því að ég minnist þess að úr röðum núverandi stjórnarþingmanna hafa áður komið fram mjög miklar gagnrýnisraddir á allar leiðir til að draga úr kostnaði við gjafsókn.

Eins velti ég fyrir mér breytingunni sem á að fela ráðherra í stað dómstólaráðs, að ákveða þóknun vegna verjenda og réttargæslumanna. Ég velti fyrir mér hvort málið sé ekki einmitt það að þetta eigi að liggja hjá dómstólaráði til að halda dómskerfinu sjálfstæðu. Að lokum velti ég fyrir mér varðandi sóknargjöldin, hvort ég skilji það ekki rétt að með þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til sitji meira eftir hjá ríkinu og minna fari til annars vegar sóknanna og hins vegar háskólans en hér er gert ráð fyrir. Er sá skilningur minn réttur?

Í síðasta lagi vildi ég beina spurningu til ráðherra (Forseti hringir.) um greiðslu til þolenda afbrota, þar á að hækka mörkin. Ég skil það þannig að talsvert færri muni þá eiga rétt á bótum vegna afbrota sem þeir verða fyrir og ég velti fyrir mér hvort fyrir liggi mat á því hversu mikið þeim muni fækka.