137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað ekki annað en fagnað ágætum svörum hæstv. ráðherra og tel að það sé rétt að í nefndastörfum komi þessar upplýsingar fram. Ég held að það sé augljóst að stærsta verkefnið er auðvitað að draga úr kostnaði í hinum opinbera rekstri. Eins og við þekkjum og eins og vikið hefur verið að í þessari umræðu hefur hann aukist mjög verulega á undanförnum árum. Á góðæristímanum þandist ríkisreksturinn út allt of mikið, því miður, og við verðum að horfast í augu við að þar fórum við fram úr okkur og við ætlum að ná honum niður. Ég geri mér grein fyrir því að það er erfiðara að draga úr ríkisútgjöldum en auka þau. Það leiðir af sjálfu sér. En ég verð að segja að ég held að það sé það stóra verkefni sem við þurfum að glíma við og ég fagna því að ríkisstjórnin er komin áleiðis í því verkefni en get ekki annað en undirstrikað þá skoðun mína að þar hefði átt að stíga og ætti að stíga stærri skref en hér er gert. Það er atriði sem við munum fá tækifæri til að ræða betur síðar í þinginu en þar tel ég að þunginn verði að liggja einfaldlega vegna þess að hagkerfi okkar Íslendinga mun ekki ná sér á strik nema fjármunir verði að sem mestu leyti eftir hjá einstaklingunum og fyrirtækjunum. Þess vegna verður hið opinbera að halda að sér höndum og gæta þess að taka ekki til sín af sífellt stærri hluta kökunnar.