137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem var dreift í gærkvöldi. Í ljósi þess hversu seint því var dreift, sem reyndar hefur komið fram hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum, höfum við kannski ekki haft allt of mikinn tíma til að lesa það spjaldanna á milli. En almennt má segja að auðvitað sé nauðsynlegt að bæði auka tekjur og lækka útgjöld. Í fljótu bragði virðist frumvarpið taka á nokkrum af þeim þáttum. Þó er það kannski nokkuð augljóst og hefur komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að fyrst og fremst er á þessu yfirstandandi ári verið að auka tekjur en útgjöld lækka kannski ekki eins mikið og hefði mátt vænta. Kannski er það þó þannig að sú þensla sem átti sér stað á árinu 2007 sem við framsóknarmenn vöruðum talsvert við, þau þenslufjárlög sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar komu hér með í gegn, þ.e. að verið sé að taka hluta af því til baka.

Maður getur líka velt því fyrir sér af hverju við séum að fjalla um þetta hér seinni hlutann í júní, af hverju þetta hafi ekki komið fyrr fram. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna — þó þeir hafi ekki setið óslitið síðan í febrúar þá hafa þessir flokkar setið við ríkisstjórnarborðið og maður veltir því fyrir sér að hverju þeir hafa verið að vinna þá þrjá mánuði sem minnihlutaríkisstjórnin sat.

Í því ljósi er óhjákvæmilegt að koma aðeins inn á annað stórmál sem var hér rætt í gær og hefur átt hug okkar þingmanna allra og alveg, þ.e. Icesave-málið. Í ljósi þess sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haft um það að segja þegar hann var hv. þingmaður hefur mig undrað það mjög að það mál hafi ekki verið tekið upp hjá minnihlutaríkisstjórninni og reynt að hafa með allt öðrum hætti og bera með allt öðrum hætti aftur fyrir þingið í stað þess að koma með það hér inn eins og við sáum það í gær, þá samninga sem að lokum voru kynntir þinginu eftir að þeir höfðu á einhvern hátt lekið í fjölmiðla.

Það er líka ámælisvert og alla vega umræðunnar virði að í þessu frumvarpi virðist vanta, alla vega að mínu mati, yfirsýn yfir það sem við þurfum að gera í ríkisfjármálum þó að þetta taki á ákveðnum hlutum. Vissulega eru boðaðar frekari aðhaldsaðgerðir sem koma þó fyrst og fremst til með að virka á næsta ári og þar næsta. En mér finnst vanta í allan málflutning hæstv. ríkisstjórnar hvar ríkisstjórnin ætli að sækja fram, hvernig eigi að tryggja hag heimila og fyrirtækja, hvernig, hvar og hvenær við sjáum tillögur um uppbyggingu atvinnulífsins.

Það hefur margoft komið fram í umræðum í þinginu á liðnum mánuðum og sjálfsagt fyrr að við þurfum að leita í reynslubrunn annarra. Ég hef áður sagt í þessum stóli að við ættum að læra af reynslu annarra þjóða sem hafa gengið í gegnum bankahrun og efnahagskreppur. Við höfum ráðgjafa frá Finnlandi. Við höfum einnig ráðgjafa frá Svíþjóð sem meðal annars hefur komið að þeim málum sem við höfum verið að ræða fyrr í dag. Við höfum norskan seðlabankastjóra og söknum þess að hafa engan Dana satt best að segja í þessu ljósi. (Fjmrh.: Poul Thomsen er Dani.) Já, sko. Við höfum alla flóruna. En þessir ágætu herramenn, sem þeir eru held ég reyndar allir, miðla reynslu sinni af bankahruni þeirra landa og efnahagskreppa sem komu í kjölfarið. En eins og hefur komið líka fram í þessum ræðustóli ættum við að skoða reynslu annarra þjóða eins og Asíuþjóða sem eiga sér miklu líkari sögu að segja okkur þar sem reynsluumhverfi þeirra er miklu líkara því sem við erum að lenda í þar sem lán og skil inn í bankana eru með miklu líkari hætti en var tilfellið á Norðurlöndunum. Það voru vissulega erfiðar kreppur þar í löndum en þær eru hreinn barnaleikur í samanburði við það sem við horfum upp á og eins ýmsar Asíuþjóðir.

Þó hefur ein reynsla okkar ágætu nágrannaþjóða verið talsvert til umfjöllunar á síðastliðnum mánuðum en ekki síður jafnvel árum en það er hin svokallaða finnska leið sem margir tóku hér upp þegar í tísku var að agnúast út í alla atvinnuuppbyggingu sem byggðist á auðlindum til sjávar og sveita, ekki síst ef inn í það spilaði orka og stóriðja. Þá var hér mikið kallað fram um að við ættum að fara finnsku leiðina og át síðan hver þessa vitleysu upp eftir öðrum og þannig gekk nokkur missiri þangað til bankahrunið varð. Þá var farið að skoða hvað lá í þessari finnsku leið. Þá fóru svo sem að renna kannski fleiri en tvær, þrjár og jafnvel fjórar grímur á fólk því að í ljós kom að hin finnska leið var ekki frekar en hið íslenska efnahagsundur neinn dans á rósum til bætts efnahags því að finnska bankahrunið sem varð um 1990 varð til þess að þar gerðust þeir atburðir sem við höfum kannski horft upp á í vetur að ríkisstjórnir urðu máttvana, aðgerðalausar, aðgerðalitlar, virtust lítið getað ráðið við vandann og atvinnuleysi jókst gríðarlega, gjaldþrot bæði heimila og fyrirtækja og enn jókst atvinnuleysið. Atvinnuleysið endaði í að fara í jafnvel nærri 30% og á einstaka svæðum í 50%. Þetta þýddi það að atvinnuleysisbætur og slíkir sjóðir tæmdust og sífellt voru settir meiri og meiri peningar í það. Að lokum voru þeir skertir og farið var að setja fólk sem var búið að vera atvinnulaust í mjög langan tíma á bætur.

Ég nefni þetta í svo löngu máli þar sem mér finnst frumvarpið sem við erum að fjalla um hérna bera nokkurn keim af þessu. Satt best að segja höfum við farið þrátt fyrir að við ætluðum í haust eftir að okkur var ljóst í hverju finnska leiðin var fólgin þá ætluðum við — og því held ég lofuðu allir — ekki að fara finnsku leiðina. Við vildum reyna að læra af reynslu þeirra. Satt best að segja virðumst við hafa stigið hvert einasta þrep í þeim stiga niður í þann kjallara að dýpka efnahagslægðina meira en ástæður eru til og eru þær þó nægar. Hér erum við sem sagt. Ein helsta tekjuleiðin í þessu frumvarpi byggist á því að leggja aukinn skatt á fyrirtæki og sveitarfélög en auðvitað ríkisvaldið líka og ég sakna þess, ekki bara í þessu frumvarp heldur öllum öðrum, að hér er reiknaður út kostnaður ríkisins en ekki er tekið tillit til kostnaðar hins stjórnsýslustigsins í landinu, þ.e. sveitarfélaganna, til þess kostnaðar sem þau verða fyrir vegna þessa gjalds. Í staðinn hefði maður viljað sjá einhver ákvæði, ekki endilega í þessu frumvarpi en samhliða og jafnvel miklu fyrr, sem mundu miða að því að auka neyslu í landinu, koma fleira fólki út í atvinnulífið. Það vantar, frú forseti, meiri sóknarleik í hæstv. ríkisstjórn.

Það er margt satt í því sem oft hefur verið sagt að sókn sé besta vörnin. Á það skortir. Við höfum verið að ræða í þinginu á undanförnum vikum talsvert um atvinnumál og hvernig ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar stendur sig í því. Á það hefur skort að menn hafi sýnt þá samstöðu sem þó er kannski í orði meiri í dag en við höfum upplifað undanfarna mánuði. Væri þó kannski nokkur von fólgin í því til að mynda ef hæstv. umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra töluðu einum rómi. En það er auðvitað ekki nóg að tala ef gerðirnar verða síðan ekki samræmi við orðin.

Hér er eitt atriði sem snertir fjármagnseigendur. Hækka á gjald, í það minnsta tímabundið, skatt, úr 10% í 15%. Eitt atriði hef ég áhuga á að ræða og spyrja hæstv. fjármálaráðherra um. Ég hef reyndar ekki lesið — ég hef alla vega ekki séð það í frumvarpinu, ég hef ekki séð texta varðandi það. En eins atriðis hef ég ævinlega saknað varðandi skattkerfið og hef ekki skilið, reyndar bara hreint ekki skilið. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi að þetta væri liður í að þróa skattkerfi okkar til frekari jöfnuðar. Á liðnum árum hafa menn sem starfa sjálfstætt þurft að reikna sér reiknað endurgjald og borga af því skatta, eðlilega. Skattstjóri ákveður hvað sé eðlilegt reiknað endurgjald fyrir mismunandi störf, sauðfjárbændur, trillukarla, múrara, tannlækna eða hvað annað. En ein stétt hefur ævinlega verið undanskilin þessu reiknaða endurgjaldi og það eru þeir sem sýsla með peninga. Ég hef aldrei getað skilið það að sérfræðingar, hvort sem það eru dýralæknar eða lögfræðingar, þurfi að reikna sér kannski 500 þús. á mánuði sem reiknað endurgjald, en fjármagnseigendur sem sýsla með peninga þurfi ekki að gera hið sama og borga þar með ekki útsvar til sveitarfélaga og að þetta sé hin fullkomna jöfnun. Þeir hafa að því er virðist í fjölmiðlum á síðastliðnum árum þegar birt eru skattyfirlit eða launatöflur, þá virðast þessir aðilar hafa komist upp með að borga sér ótrúlega lág laun. Þetta hef ég alls ekki getað skilið þar sem ég þekki umhverfi sjálfstætt starfandi atvinnurekenda allnokkuð vel og ég veit ekki til annars en að þar þurfi allir að gefa upp starfshlutfall sitt og fara eftir því reiknaða endurgjaldi sem skattstjórinn setur. Mig langar að heyra viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra við því hvort þetta hefur aldrei verið reifað í kerfinu.

Síðan eru nokkur önnur atriði sem snerta tekjuhliðina sem auðvitað er hægt að deila um og menn hafa verið í púlti í dag að velta fyrir sér hvort muni skila nægilegu eða ekki. Á einn þátt í því vil ég koma með smávinkil og það er það sem við ræddum um leið og við lögðum á olíugjald, bensíngjald, vörugjöld og slíka hluti. Þetta er auðvitað nokkurs konar landsbyggðarskattur sem leggst þyngra á þá sem þurfa nauðsynlega starfa sinna vegna að aka lengri leiðir, bæði til vinnu eða til að afla nauðsynja. Jafnvel þó að í því frumvarpi hafi verið tekið tillit til að reyna að lækka eða koma til móts við það að flutningskostnaður mundi ekki hækka þá þekkjum við það að auðvitað eru neysluvörur talsvert dýrari á landsbyggðinni en þar sem fleiri búa. Þessi skattur leggst þyngra á þá sem óhjákvæmilega þurfa að aka um lengri veg og má því kalla landsbyggðarskatt. Einnig er hér um að ræða fylgifisk allra slíkra hluta sem tengjast vísitölu og kom þá fram í umræðunni að þetta hefði þau áhrif að lán heimila mundu hækka um 8 milljarða. Hér eru líka inni vísitöluhækkanir sem tengjast breytingu á virðisaukaskatti. Í raun og veru erum við því samhliða því að auka tekjur ríkisins um allt að 21 milljarð á þessu ári samtímis að hækka skuldir heimilanna um kannski allt að 10–11 milljarða.

Annað sem við þurfum að ræða í þessu frumvarpi er þess eðlis að við þurfum að gefa okkur aðeins meiri tíma til að fara yfir þetta. Ég nefndi þó áðan tryggingagjaldið sem á að skila á ársgrundvelli 12,5 milljörðum, þar af 2 milljörðum sem koma úr ríkissjóði. En þar kemur ekkert fram, alla vega ekki í frumvarpinu, ekki frá fjármálaráðuneytinu — ég hef saknað þess á liðnum árum sem sveitarstjórnarmaður að ekki sé reiknaður út kostnaður hins opinbera stjórnsýslustigsins á því hvað ákveðið er í þinginu. Það hefði verið áhugavert að sjá hvaða áhrif þessi tryggingagjaldshækkun hefði á sveitarfélögin sem atvinnurekanda eins og aðra atvinnurekendur.

Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þá finnst mér fyrst og fremst að það sem skortir á við umfjöllunina sé sú staðreynd að við höfum ekki séð og höfum ekki rætt nægilega mikið hvernig við ætlum að byggja upp atvinnulífið. Ég sakna þess að sjá ekki meiri sóknarleik hjá hæstv. ríkisstjórn.