137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði hvað ríkisstjórnir hefðu verið að gera síðan 1. febrúar sl. og það er auðvitað hægt að lista það upp. Mér telst svo til að milli 20 og 30 frumvörp hafi orðið að lögum á tímabilinu frá því um miðjan febrúar og fram um 4. apríl, eða hvað það nú var sem sú stjórn sat, fjölmargar aðgerðir sem tengdust fjölskyldum og atvinnulífi, greiðsluaðlögun, frestun nauðungaruppboða, hækkun vaxtabóta, gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið og þannig mætti áfram telja.

Síðan vorþing hóf störf eru nokkur frumvörp orðin að lögum, urðu í gær og verða á næstu dögum og hér eru stór mál að bætast við og eiga eftir að bætast við þannig að ég get lofað hv. þingmönnum því að þeir munu hafa nóg milli handanna og með nóg að sýsla.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að reyna að læra af reynslu annarra þjóða við aðstæður sem þessar og eftir því sem þær eru að einhverju leyti sambærilegar, en þá að sjálfsögðu bæði það sem vel hefur tekist hjá öðrum og það sem miður hefur tekist. Við höfum sótt okkur heilmikla reynslu í smiðju annarra eins og kom fram þegar hv. þingmaður taldi upp ýmsa ráðgjafa og aðstoðarmenn sem við höfum fengið, ekki síst frá Norðurlöndunum og er þó ekki upp talin öll sú aðstoð sem við höfum fengið frá þeim, sumt liðsinni af ýmsu tagi bak við tjöldin sem hefur gagnast vel.

Varðandi reiknað endurgjald hljómar það eins og ég sé hjartanlega sammála hv. þingmanni og það er ekki langt að sækja hugmyndirnar því ég hef flutt árlega í nokkur ár frumvarp um að fjármagnstekjuhöfum, þeim sem hafa miklar fjármagnstekjur en telja fram engar eða óverulegar launatekjur verði gert að reikna sér endurgjald. Það var skoðað í ráðuneytinu að taka á þessu núna og samræma skattalega meðferð einkahlutafélaga hvað varðar arðgreiðslur o.fl. en það náðist ekki að hafa það með í þessari umferð en ég lofa hv. þingmanni því að á því verður tekið.

Að lokum um útkomu sveitarfélaganna í þessum efnum hefur það verið metið og ég hef fundað með sveitarfélögunum um þessar aðgerðir og það lætur nærri að tekjuauki sveitarfélaganna vegna hlutdeildar (Forseti hringir.) þeirra í tekjum ríkissjóðs sem renna í jöfnunarsjóð sé svipuð stærð og útgjaldaauki þeirra vegna hækkunar tryggingagjalds nemur.