137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir uppgjör sitt við fortíðina og fyrirhyggjuleysistímabilið. Hann beindi nokkrum spurningum til þeirra sem hafa verið að vinna í þessari vinnu og vangaveltum um hvaða skilaboð væru gefin.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að taka undir það sem hv. þingmaður sagði að á þensluárunum hefðu menn betur hugsað til áranna þegar hugsanlega kæmi til þrenginga. Þar með er ég ekki að ásaka hv. þingmann um að hafa ekki staðið sína vakt, ég á við að menn lækkuðu skatta á sínum tíma, bæði á fyrirtækin og einstaklinga þegar þenslan var hvað mest. Þeir juku útlán til húsnæðisbygginga. Gripið var til ýmissa aðgerða sem okkur vantar núna. Nú hefðum við þurft að eiga sjóði einmitt til að setja innspýtinguna í atvinnulífið en því miður er búið að ráðstafa þessu öllu.

Það var líka komið að því fyrr í umræðunni að eitt af því sem gerðist í aðdraganda kosninganna árið 2007 var að það voru býsna dýrir kosningavíxlar sem fóru í loftið þá, á milli 20 og 30 milljarðar sem var ávísun sem menn urðu meira og minna að standa við.

Þessu til viðbótar er það hárrétt að það var varað við útgjaldaaukningunni á milli 2007 og 2008. Þar var einmitt verið að bæta verulega við félagsmálapakkann. Á milli 10 og 15 milljörðum var bætt við í félagsmálapakkann á þessu tímabili, miðað við árstekjur. Ég ætla ekki að rifja upp af hverju. Ég ætla ekki að fara að nudda Framsókn upp úr því að hafa stjórnað félagsmálaráðuneytinu án þess að hafa sinnt því á árunum áður. Kannski höfum við ætlað okkur um of á þessum tíma. Mig langar einmitt að spyrja þingmanninn hvernig hann hafi séð fyrir sér að menn hefðu átt að gera þetta öðruvísi, hvort hann taki ekki undir athugasemdir mínar um að við notuðum öll kreppuúrræðin á góðæristímanum, á sínum tíma. Og hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé einmitt þess vegna sem okkur vantar mikið af verkfærunum sem við þurfum til að grípa inn í núna.