137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist að ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson séum sammála um að við búum við það að hafa brugðist vitlaust við í góðærinu og þar af leiðandi misst verkfærin núna í kreppunni.

Varðandi það sem hann kom að í ræðu sinni og aðeins í andsvarinu, þar sem hann er að velta fyrir sér af hverju við verjum ekki betur velferðarkerfið, þá langar mig aðeins að minna á að það er auðvitað mjög brýnt að halda því til haga bæði niðurskurðinum varðandi 2009 og eins varðandi 2010, að menn hafa sett aðrar prósentur og önnur viðmið varðandi bæði heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið en á aðra málaflokka. Svo því sé haldið til haga að það er einmitt ætlunin að reyna að verja þessi velferðarráðuneyti og það er líka minna sett á menntamálin en önnur ráðuneyti.

En ég vil taka heils hugar undir með hv. þingmanni að það er full ástæða til að skoða útgjöldin og útgjaldaaukninguna á liðnum árum, hvort sem er í ráðuneytum eða á öðrum stöðum og það er ásetningur bæði í því sem hér kemur fram og því sem mun koma fram í skýrslunni að menn fari yfir þetta og skoði útgjaldaaukninguna. Hvers af þessu getum við verið án? Hvað er óþarft í þjónustunni? Hvað er það sem ekki er lögbundið og er ekki verkefni ríkisins? Ég held að það sé líka hárrétt ábending að við þurfum að skoða útgjöldin þvert á ráðuneyti, þ.e. við þurfum að bera saman hvernig við erum að sinna hvort sem er launaliðum eða starfsumhverfi, þvert á ráðuneyti og þvert á málaflokka. Því auðvitað kemur í ljós að menn hafa búið við mjög mismunandi kjör eða mjög mismunandi umhverfi eftir því hvar þeir hafa verið í kerfinu. Það kemur fram í því plaggi sem hér er birt og mun væntanlega koma enn betur í ljós í framhaldinu, að farið verður í slíka greiningu. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sé mér sammála um að þetta sé mjög mikilvægt.