137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var eins og ég spáði. Hæstv. ráðherra tók eina og hálfa mínútu í að ræða um fortíðina en ekki hvað ríkisstjórnin ætlar að gera fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Verið er að hækka lán heimilanna um milljarða kr. ofan á þá milljarða sem ríkisstjórnin ákvað með síðustu lagabreytingu.

Spurning mín var einföld: Ætlar hæstv. ríkisstjórn með einhverjum hætti að leiðrétta stöðu heimilanna í þeirri stöðu sem blasir við okkur í dag, að lækka skuldirnar en ekki stuðla að því að þær verði hækkaðar? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra líka að því hvort hún styðji okkur þingmenn ekki í því að hér verði lagt fram fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2009. Eða er hæstv. forsætisráðherra á því að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eigi að taka sér fjárlagavaldið? Nóg hefur niðurlæging Alþingis verið á undangengnum vikum og mánuðum þegar við höfum þurft að lesa í blöðum og horfa upp á það í fjölmiðlum hvaða skuldbindingar ráðherrar í ríkisstjórninni hafa verið að gera fyrir hönd íslensku þjóðarinnar án þess að hafa kynnt Alþingi það og nú verður höfuðið bitið af skömminni ef fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2009 verður ekki lagt fram. Menn geta kannski sagt að það sé ekki hefð fyrir því en á hvaða tímum lifum við? Á hv. Alþingi ekki að gegna neinu hlutverki í þessari endurreisn? Halda hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni að þeir einir geti risið undir þessu, að það þurfi ekki aðstoð frá öðrum flokkum til að koma fram með hugmyndir að aðgerðum til að vinna á þeim vanda sem uppi er? En því miður þegar maður kallar eftir hugmyndum frá hæstv. ráðherra er það eina sem hún talar um einhver 10 eða 12 ára gömul mál, sem er náttúrlega ekki eitthvað sem horfir til framfara, því miður. Við erum því miður með ráðherra sem horfa einungis í baksýnisspegilinn en ekki fram á við.