137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson er ágætlega sprækur og ég óska honum til hamingju með það. Ég greindi að ég tel eina spurningu í máli hans sem beindist beint að mér og það er spurningin um það hvenær lagt verði fram frumvarp til fjáraukalaga. Svarið við því er að gert er ráð fyrir því að það verði með hefðbundnum hætti í haust. Það hefur verið skoðað. En veruleikinn er sá að með því frumvarpi sem hér er lagt fram verða stofnaðar allar fullnægjandi lagaheimildir sem til þarf vegna breytinga á tekjuöflun og lögbundnum útgjaldaniðurfærslum, þ.e. þeirra sem kalla á breytingar á sérlögum. Þar með má segja að þetta frumvarp sé á vissan hátt ígildi fjáraukalaga en aðrar afstemmingar á fjárheimildum verða þá gerðar með hefðbundnum hætti með fjáraukalagafrumvarpi í haust enda má segja að það muni kannski ekki miklu hvort hér væri verið að baksa með fjáraukalagafrumvarp í júlí eða í lok september, byrjun október.

Að öðru leyti kom hv. þingmaður inn á annað mál sem er svonefnt Icesave-mál sem á eftir að verða rækilega rætt á þinginu þannig að ég ætla ekki að dvelja mikið við það fyrir utan að mótmæla því að vaxtakjör þess láns séu ekki hagstæð eða þess lánasamnings sem þarna náðist. Ég hvet hv. þingmann til að skoða það að þarna var verið að festa einhverja lægstu langtímavexti sem í boði hafa verið í 50 ár og þeir eru þegar búnir að hækka talsvert frá því að stafirnir voru settir þarna undir. Ég get nefnt sem dæmi til samanburðar að Íbúðalánasjóður var sem betur fer að lækka örlítið vexti sína núna eftir síðasta útboð. Niður í hvað? Niður í 5,1% af lánum sem ekki eru með uppgreiðsluálagi á verðtryggðum lánum. Hér erum við að tala um nafnvexti á óverðtryggðum löngum lánum sem að sjálfsögðu þýðir að núvirt er í því fólginn verulegur ávinningur þannig að ég fullyrði að hv. þingmaður er á villigötum hvað varðar vaxtakjörin á þessum lánasamningi.