137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það á mikill tími eftir að fara í umræður um Icesave-skuldbindingar, þ.e. þá ríkisábyrgð sem þingmenn munu mögulega samþykkja. En ég vona svo sannarlega að það verði ekki gert því að ég get ekki séð, og hef ég nú skoðað mikið af upplýsingum um þessi mál, að íslensk þjóð geti með sómasamlegum hætti staðið undir þessu á næstu árum. Fyrir utan það að fjölmargir lögaðilar hafa haft samband við mig í dag og í gær frá því að þetta var birt og lýst yfir furðu sinni á mörgum ákvæðum í þessu samkomulagi. Þá hljótum við að spyrja okkur þessarar grundvallarspurningar: Hvernig hófum við þessa vegferð?

Hafði það ágætisfólk — ég ætla ekki að kasta rýrð á það — sem var í þessari viðræðunefnd gagnvart þaulreyndum, erlendum samningamönnum þá reynslu og þá þekkingu að takast á við þaulreynda samningamenn Breta og Hollendinga? Ég leyfi mér að efast um að menn hafi reynt til fulls að beita sér með þeim hætti í þessum viðræðum að við hefðum ekki getað séð miklu betri og ásættanlegri niðurstöðu. Það skiptir miklu máli upp á vaxtaprósentuna og þá erum við að tala um milljarðatugi upp á hvert prósent sem íslenska þjóðin þarf að taka á sig, sú vaxtaprósenta skiptir miklu máli fyrir utan það að menn skuli geta skrifað undir það — segjum sem svo að þetta eignasafn Landsbankans sé ekki eins mikils virði og menn áætla — að 300 þúsund manna þjóð norður í hafi þurfi að skrifa undir það að taka alla áhættuna af því ef þetta mál fer illa. Til hvers erum við þá búin að dæma kynslóðir Íslendinga til áratuga? Ég ætla að skilja þá spurningu eftir í ræðustól Alþingis.