137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum aðgerðir í ríkisfjármálum og ástæðan fyrir því er sú að ríkissjóður hefur orðið fyrir miklu tekjufalli á undanförnum mánuðum og sér reyndar ekki fyrir endann á því.

Í ársbyrjun gerði ríkisstjórnin ráð fyrir því að hallinn yrði ekki nema um 150 milljarðar en hann stefnir núna í að verða um 170 milljarðar. Mikill þrýstingur hefur verið á ríkisstjórnina að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs, m.a. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og peningastefnunefnd Seðlabankans. Áhyggjur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins beinast að áhrifum hallans á greiðslugetu ríkissjóðs þegar til lengri tíma er litið. Peningastefnunefndin telur sig ekki geta lækkað stýrivexti frekar án þess að fyrir liggi áætlun um aðhald í ríkisfjármálum.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið tillit til þessara sjónarmiða og lagt fram frumvarp til aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum á þessu og næsta ári. Við gerð frumvarpsins var leitast við að hafa pólitísk markmið stjórnarflokkanna að leiðarljósi sem miða meðal annars að því að forgangsraða útgjöldum og leggja þyngri byrðar á þá sem breiðari bökin hafa. Nefni ég í því sambandi hækkun fjármagnstekjuskatts og hátekjuskattinn. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að standa vörð um störfin í velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfinu og huga að ólíkri stöðu karla og kvenna í samfélaginu.

Það er ekkert launungarmál að ég hef haft ákveðnar efasemdir um að rétt sé að fara inn í almannatryggingakerfið og skera þar niður án þess að fram fari heildarendurskoðun á kerfinu. Ég get þó upplýst hér að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur uppi áform um að fara í slíka endurskoðun.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir tekjufalli ríkissjóðs er fyrst og fremst allt of hátt vaxtastig frá því að gengið var til samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þá voru vextir hækkaðir í 18% en hafa nú verið lækkaðir niður í 12%. Þeir eru samt sem áður þeir hæstu í Evrópu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Í gærkvöldi heimsótti fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra Ekvadors þingflokk Vinstri grænna og skýrði frá reynslu Ekvadors af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og einhliða upptöku dollars þar í landi. Hann varaði okkur við Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sagði sjóðinn fyrst og fremst pólitíska stofnun. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætti aðeins tvö ráð við fjármálakreppu, háa vexti og niðurskurð ríkisútgjalda. Hátt vaxtastig léki atvinnulífið grátt á meðan erfitt væri að skera niður ríkisútgjöld vegna þess að sístækkandi hópur þyrfti á aðstoð ríkisins að halda. Fari íslensk stjórnvöld að ráðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins muni kreppan aðeins dýpka og þjóðin verða háð Alþjóðagjaldeyrissjóðnum næstu árin og jafnvel áratugina. Þetta hefðu lönd Suður-Ameríku margreynt og væru því tilbúin til að gera allt til að losna undan oki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Þess má geta að lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru oftast notuð til þess að styðja beint og óbeint við gengi innlends gjaldmiðils eins og íslensku krónuna.

Virðulegi forseti. Ef fyrirliggjandi áætlun um ráðstafanir í ríkisfjármálum leiðir ekki til verulegrar vaxtalækkunar verður ekki langt að bíða þess að við þurfum aftur að koma saman og ræða frekari niðurskurð og skattahækkanir. Ef það verður niðurstaðan er ekkert annað eftir en að endurskoða samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Virðulegi forseti. Ísland var meðal tíu ríkustu þjóða heims þegar bankakerfið hrundi sl. haust og atvinnuþátttaka var meiri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Íslenska þjóðin er því betur í stakk búin til að takast á við afleiðingar fjármálakreppunnar en margar aðrar þjóðir og það má ekki eyðileggja það með rangri stefnu í peningamálum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)