137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var að mörgu leyti mjög athyglisverð ræða hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, ekki síst vegna þess að ég greindi töluverða vantrú á því að það verkefni sem ríkisstjórnin hefur ráðist í í ríkisfjármálum mundi duga til að leysa vandamál þar. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að þessi bandormur feli í sér nógu aðhaldsríkar aðgerðir í ríkisfjármálum og þá ekki síst í ríkisrekstrinum sjálfum. Í öðru lagi vil ég spyrja hana að því hvort hún telji að það sé nógu mikið fóður fyrir peningamálastefnu Seðlabanka Íslands um að lækka stýrivexti sem við höfum svo mjög kallað eftir. Og í þriðja lagi spyr ég, ef hv. þingmaður hefur svona miklar áhyggjur af því og er óttaslegin yfir því að við skulum hafa gengið til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hvort hún telji að það plan sem ríkisstjórnin hefur núna muni hreinlega duga og hvort við þurfum þá að endurskoða strax samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.