137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir að þetta var að mörgu leyti mjög athyglisverð ræða. Mig langar til að spyrja hv. þingmann a.m.k. tveggja spurninga:

Í fyrsta lagi: Það er lagt til í þessu frumvarpi að hámarksgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs verði lækkaðar úr 437.500 í 350.000 á mánuði. Nú veit ég að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um jafnrétti kynjanna og launamun kynjanna og í ljósi þess að eitt af markmiðunum með fæðingarorlofslögunum nýju var að jafna launamun kynjanna, hvaða áhrif telur þingmaðurinn að þessi lækkun hafi á þá þróun? En eins og við vitum eru það karlarnir sem eru með hærri launin og ég spyr þingmanninn: Gæti þróunin hugsanlega orðið sú að þetta sendi konurnar í meira mæli heim (Forseti hringir.) en karlarnir nýttu sér ekki fæðingarorlofið með sama móti?