137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spyr hvort ekki hefði verið betra að stytta fæðingarorlofið frekar en að lækka þessar hámarksbætur. Ég tel að við höfum farið betri leiðina með því að lækka hámarksbætur í ljósi þess að laun eru almennt að lækka hér á landi og þau eru núna ekki nema rétt rúmlega 300 þúsund að meðaltali.

Auðvitað er þessi aðgerð ekki góð leið til þess að auka á jöfnuð kynjanna en í ljósi slæmrar stöðu ríkissjóðs þurfti að velja aðgerðir sem síst kæmu illa við þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Það var mat stjórnarflokkanna að þessi aðgerð væri slík aðgerð.