137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör fram til þessa. Ég ítreka spurningar mínar um þjóðhagsspána og þau frávik sem þar eru. Mér finnst nú samt sem áður — ég hef alveg heyrt þessi skilaboð frá aðilum vinnumarkaðarins um að þetta væri ekki leið sem þeim hugnaðist. Þeir hafa sjálfir áform um alls konar hluti, til dæmis að beita lífeyrissjóðunum inni í verklegum framkvæmdum og fleira. Ég veit ekki hvort þeim finnst þetta ríma illa saman við það. Enn fremur má nefna að ég held nú alltaf að maður sé að horfa á tímabundna tekjuöflun til þess að koma ríkissjóði út úr þessum óskaplega vanda sem nú er við að glíma.

Mig langar í framhaldi af þessu til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í framkvæmdir vegna þess að það er skorið niður og ég á von á því eða ég get ekki betur skilið það en svo að verulega verði skorið í framkvæmdum. Mig langar því að spyrja: Þegar aðilar vinnumarkaðarins eru að ræða aðkomu lífeyrissjóða að framkvæmdum, um hvers konar framkvæmdir eru menn að tala? Eru þeir að tala um til dæmis háskólasjúkrahúsið eða eru þetta fyrst og fremst samgöngumannvirki eða er það rétt sem ég hef heyrt að þeir séu að tala hér um orkuframkvæmdir? Hvaða skilyrði eru það eða hvað er það sem þeir eru að sækjast eftir í því? Hvers konar framkvæmdir eru það sem þeir vilja sjá þarna komast á koppinn? (Gripið fram í.)