137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Undanfarna tvo áratugi hafa nánast allar sameiginlegar eignir þjóðarinnar verið seldar á útsölu í einkavinavæðingarklúbbnum sem á rætur sínar að rekja hingað inn í hina háu sali ráðamanna ríkisins. Enn sitja margir þeirra sem tilheyra þessum klúbbi á þinginu og því efast maður um að hér fari fram alvöruuppgjör og siðbót á þeirri miklu spillingu sem hefur fengið að grassera hérlendis. Spillingin er svo mikil að hún mælist ekki einu sinni á alþjóðastandördum. Samspillingin og samtryggingin, skilgreind víða um heim sem mafía, viðgengst hér.

Nú eru flestar stofnanir sem einkavæddar voru að komast í eigu þjóðarinnar að nýju með meiri blóðtöku en nokkurn hefði getað órað fyrir. Ekki má gleyma ábyrgð þeirra sem áður sátu hér við völd og því er ósanngjarnt að velta allri gremjunni yfir á VG sem þarf að finna lausnir á þeim vanda sem ríkisstjórnir síðustu tveggja áratuga hafa tekið þátt í að skapa.

Frú forseti. Það er ekki sanngjarnt að taka á þessum málum þannig að þjóðin þurfi að taka enn meira á sig en hún þarf nú þegar að bera. Það sem þjóðin þarf að finna fyrir í dag er réttlæti, finna fyrir því að hún hafi ástæðu til að fórna enn meiru og lifa við langan dimman vetur samdráttar og lakari lífsgæða til lengri tíma. Það er ekki neitt réttlæti í þeirri staðreynd að enginn hefur verið sóttur til saka fyrir þá svikamyllu sem hér var stunduð fyrir opnum tjöldum í einkavinavæddu bönkunum. Það er ekki réttlátt að almenningur eigi að taka á sig skerðingu á sínum kjörum, þurfi að vinna lengur dag hvern fyrir brot af þeim lífsgæðum sem hann áður bjó við. Nei, kæra frú forseti, það er verið að byrja á röngum enda. Fyrst þarf að taka á samtryggingunni og spillingunni. Fyrst hefði átt að kynna niðurskurð á lúxusnum, sendiráðum og heimssýningum sem kosta okkur tugi milljóna. Fyrst ætti að elta fjármagnið til huldueyjanna og gera eignir þeirra sem allir vita að eru sekir upptækar.

Norræna velferðarstjórnin er ekki öfundsverð og reyndar alveg stórmerkilegt að hæstv. ríkisstjórn vilji spyrða velferð við þann niðurskurð sem fram undan er.

Til þess að það náist sátt um niðurskurð er nauðsynlegt að einhenda sér í að láta Evu Joly allt það í té sem hún óskar eftir svo að rannsóknin verði ekki fyrir frekari töfum. Það er nauðsynlegt að þeir sem bera ábyrgð á þessu allsherjarhruni axli ábyrgð nú þegar áður en frekari fórna er óskað af þjóðinni með aukinni skattheimtu og niðurskurði á velferðarkerfinu.

Það eru ekki bara hinir svokölluðu útrásarvíkingar sem þurfa að sæta ábyrgð. Það eru þeir yfirmenn stofnana sem sváfu á verðinum sem þurfa að sæta ábyrgð. Það er gjörvallt embættismannakerfið sem þarf nákvæmrar endurskoðunar við og þar þarf að verða uppgjör. Það verður að vera alvöruuppgjör hérlendis annars mun hér aldrei verða friður og það er það eina sem mun verða til þess að fólk sé tilbúið til að taka þátt í að endurreisa landið.

Til hvers að endurreisa samfélag sem getur allt eins hrunið á nákvæmlega sama hátt og það sem áður hrundi? Það þýðir ekkert að setja plástra á svöðusárin. Það verður að hreinsa meinið, taka bandorminn út úr görnunum. Því ættum við að styðja slíkt sníkjudýr sem mun éta innviði samfélagsins að forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að benda mér á þjóðir sem hafa komið vel út úr prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég get talið upp fjöldann allan af þjóðum sem hafa farið mjög illa út úr samskiptum við þennan sjóð. Það er sorglegra en tárum taki að horfa upp á hæstv. fjármálaráðherra hlýða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum án þess að blikna og neita að horfast í augu við að aðrar leiðir eru út úr þessu vandamáli.

Ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma í að tína til hvaða þættir þessa frumvarps eru góðir eða slæmir. Þetta snýst fyrst og fremst um hugarfar og aðrar lausnir. Þetta snýst um réttlæti og réttlæti og réttlæti en ekki þetta óréttlæti. Þetta snýst um að fara annaðhvort eða ekki eftir baneitruðum aðferðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem mun knésetja okkur eins og aðrar þjóðir. Þetta frumvarp er fyrsta skrefið sem hæstv. velferðarríkisstjórnin stígur til að þóknast lénsherrum landsins. Ef við höldum áfram á þessari vegferð er alveg ljóst að við munum eyðileggja velferðarkerfið, hrekja fólkið burt af eyjunni okkar og missa auðlindirnar frá okkur.

Flestir ráðamenn afskrifuðu slíkar varnaðarræður sem vænisjúka orðræðu og eitthvað sem mundi aldrei geta átt sér stað hér á landi. En því miður varð ég vitni að því að okkar hæstv. fjármálaráðherra gaf umboð til undirskrifta á samning þar sem mikil vafaatriði eru um hvort hann feli í sér framsal á auðlindum og eignum þjóðarinnar ef ekki er staðið í skilum vegna samnings sem næsta ljóst er að við munum ekki geta efnt. Við verðum að vera á varðbergi og ekki leyfa okkur að taka slíka áhættu. Hvað með einhliða upptöku annars gjaldmiðils eða er bara til ein mynt í þessum heimi sem kennd er við Evrópu? Er kannski bara til ein lausn hjá hæstv. ríkisstjórn, að ganga í ESB? Hvað gerist ef þjóðin hafnar því? Er eitthvert plan B ef svo verður? Ég óska eftir plani B ef þjóðin hafnar aðild að ESB. Ég óska eftir hugrekki í því að taka erfiðar ákvarðanir eins og til dæmis að hafna Icesave-samningnum því það er alveg ljóst að sá samningur er ekki hvað hann sýnist.

Nú erum við beitt miklum óttaáróðri og grýlur einangrunar eru við hvert fótmál. Ég held reyndar að þessar grýlur séu nú þegar til staðar. Hvort sýnum við umheiminum fram á ábyrga hegðun með því að steypa þjóðinni í slíkar fjárhagslegar skuldbindingar að við munum aldrei geta komið okkur úr vaxtavaxtavaxtabótagreiðslunum eða með því að taka raunsætt á málunum án hroka með aðstoð einhverra þeirra fjöldamörgu snillinga sem hafa áratugalanga reynslu af heiminum í kringum okkur og hafa boðist til að hjálpa okkur.

Ég er sannfærð um ef að við byrjum á réttum enda, ef við tökum fyrst á spillingunni og færum þá til dómstóla sem arðrændu okkur og svívirtu okkur og stálu frá okkur mannorði okkar á heimsvísu og þar á eftir gætum við tekið upp umræður um nýjar áherslur í samfélaginu okkar, þar sem neyslumenningin viki aðeins fyrir fjölskyldumenningunni, já, þá er ég viss um að þjóðin væri til í að leggjast á árarnar með hvaða ríkisstjórn sem er. Ég er viss um að ef þjóðin sér fram á bjarta framtíð eftir þessa dimmu nótt sé hún til í að taka þátt í endurreisninni. Ég er viss um að ef þeim sem þjást núna vegna ónógs skilnings á erfiðleikum sem þeir standa frammi fyrir í ómanneskjulegu kerfi verður rétt hjálparhönd þá séu þeir hinir sömu til í að horfa handan þess taps sem þeir hafa orðið fyrir. En það verður fyrst að verða réttlæti. Síðan er mögulegt að þjóðin sé til í blóðtöku. En það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á áherslur hæstv. ríkisstjórnar í þessu verkefni og öðrum er varða þjóðarhag.