137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá get ég alveg fullvissað hv. þingmann um að það stendur ekki til af minni hálfu að láta hann ráða meiru eða dvelja hér lengur en þörf krefur. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum að fegnastur verð ég því þegar við getum sjálf algerlega ráðið ferðinni og verið við stýrið hvað varðar okkar mál.

Sama gildir í mínum huga um glímuna við þessa erfiðleika. Ég lít á þá sem hluta af baráttunni fyrir því að við verðum áfram sjálfstæð þjóð og að við berum ábyrgð á okkur sjálf, að við ætlum að glíma við okkar erfiðleika og sigrast á þeim sjálf í trúnni á það að við getum það og að hér verði áfram gott mannlíf í landinu. Ég er fullur bjartsýni á að það muni takast. Ef okkur tekst að sameina kraftana og virkja það góða í okkur öllum til að glíma við þessa erfiðleika þurfi þetta ekki að verða mjög langvinnt skeið, það verður erfitt en ekki mjög langvinnt. Við eigum það góða möguleika á því að vinna okkur út úr þessu aftur að ég sé enga ástæðu til þess að við missum kjarkinn eða trúna á framtíðina. Það verður þá bara hluti af okkar eigin ógæfu ef við gerum það.

Íslenska þjóðin hefur aftur og aftur gengið í gengum erfiða tíma í sögu sinni og mætt ýmsum áföllum, bæði þar sem hún ber sjálf að hluta til ábyrgð á, við höfum ekki alltaf verið okkur sjálf góð og í okkar ráðsmennsku. Það sem við erum að glíma við núna er auðvitað að stærstum hluta okkur sjálfum að kenna og okkar eigin ábyrgð, við verðum að horfast í augu við það. En við höfum líka strítt lengi við óblíð náttúruöfl, við þekkjum miklar sveiflur í okkar efnahagslífi eins og flestar þjóðir sem byggja á nýtingu hverfulla náttúruauðlinda eða hluti af því tagi sem eru háðir veðri, vindum og árferði, þannig að ég held að það búi í okkar þjóðarsál að geta glímt við svona hluti. Þess vegna höfum við enga ástæðu til annars en að vera bjartsýn á það að okkur takist að komast í gegnum þessa erfiðleika. Ég held að markmið allra í þeim efnum hljóti að vera sameiginlegt, að sigrast á þessum erfiðleikum og að við gerum það sjálf sem sjálfstæð þjóð og ætlum að vera það áfram.