137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Það eru átta mánuðir síðan allt fór hérna á hliðina og engar eignir hafa verið frystar, það hefur enginn verið handtekinn, það hefur enginn verið látinn sæta ábyrgð nema kannski Davíð Oddsson.

Ég kalla líka eftir því og mér ætti ákaflega vænt um að fá að sjá eitthvert plan B ef þjóðin hafnar því að fara inn í Evrópusambandið. Hver er áætlun hæstv. ríkisstjórnar ef svo verður ekki? Munum við þá fara í algjöra einangrun eins og talað er um ef við göngumst ekki við því að greiða Icesave-skuldbindingarnar sem er algjörlega ósanngjarnt að þjóðin taki á sínar herðar? Hvað mun gerast? Ég sé bara ekki neitt í spilunum um það hvert markmið ríkisstjórnarinnar er ef þjóðin hafnar því að fara inn í Evrópusambandið. Það er það eina sem er í spilunum og það eina sem talað er um sem útgönguleið úr þessu vandamáli bæði varðandi gjaldeyri og allt annað.

Það er spurning, eins og ég lagði til, að skoða ef til vill aðrar leiðir út úr gjaldeyrisvandamálinu eða út úr þessu myntvandamáli. Við erum náttúrlega með krónuna sem er, eins og hv. þm. Þór Saari nefndi, eins geislavirk og álíka vinsæl erlendis og sumarbústaðaland í Tsjernóbil.