137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sundurliðunin hefur ekki verið birt fyrst og ástæðan er fremst sú vegna þess að ráðuneyti og stofnanir hafa óskað eftir því að fá að kynna þeim sem í hlut eiga það sem til þeirra friðar heyrir áður en það yrði opinbert þannig að menn fréttu ekki af slíku beint í fjölmiðlum. Þegar er farið að vinna eftir áætluninni og ráðuneyti og stofnanir hafa verið að kynna viðkomandi aðilum með bréfum og samskiptum það sem í vændum er í þessum efnum.

Varðandi heildarskýrsluna kemur hún fram í næstu viku, það er alveg á hreinu. Ég get ekki algerlega lofað því að það náist að dreifa henni hér fyrir lok þingfundar á mánudag en þó er að því stefnt, vinnist vel yfir helgina. Síðan eru reyndar nefndarfundir á þingi nokkra næstu daga þar á eftir en markmið mitt er það að þessi skýrsla komi í næstu viku, vonandi á mánudaginn.