137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð liggur alveg ljóst fyrir að gríðarlegur kostnaður hans á þessu ári upp á á þriðja tug milljarða króna er ein meginorsök þess að hallinn mundi að óbreyttu vaxa verulega á ríkissjóði frá því sem ráð var fyrir gert. Sú tekjuöflun sem hér er á ferðinni munar auðvitað heilmiklu í sambandi við afkomu Atvinnuleysistryggingasjóðs og mun vonandi þýða að hann þurfi ekki á beinum framlögum að halda, a.m.k. ekki á þessu ári og standi mun betur að vígi til að takast á við það atvinnuleysisstig sem við búum við, sem er sem betur fer reyndar ívið lægra núna en spár höfðu gert ráð fyrir. Sumir hlutir eru því heldur jákvæðari en menn óttuðust í vetur þótt hitt sé alveg ljóst að margir kvíði haustinu og í hönd farandi vetri hvað þann þátt málsins snertir.

Varðandi stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans er búið að kenna mér það sem ég kunni kannski ekki nógu vel fyrir í vetur að við stjórnmálamenn og alveg sérstaklega þeir sem stýra ráðuneytum á sviði efnahags- og ríkisfjármála, þurfum að vera ákaflega orðvarir í þeim efnum. Það er Seðlabankans að taka þær ákvarðanir og hann er algerlega sjálfstæður í ákvörðunum sínum, það er peningastefnunefnd bankans sem tekur þær. Ég vil bara segja það eitt að með þessu frumvarpi og þeim aðgerðum sem hér hafa verið kynntar og verða frekar kynntar á næstu dögum með ítarlegum, útfærðum aðhaldsaðgerðum fyrir árin 2009 og 2010 sem ganga lengra svo nemur næstum 10 milljörðum en hin reiknaða aðhaldsþörf er, tel ég að stjórnvöld leggi með trúverðugum hætti sitt af mörkum til þess að Seðlabankinn þurfi ekki að vera í einhverri óvissu um það og geti ekki lækkað stýrivexti sem við flest að sjálfsögðu óskum okkur að geti orðið.