137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

stuðningur við Icesave-samninginn.

[15:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil í engu draga úr umhyggju minni fyrir hæstv. fjármálaráðherra um leið og ég í þeirri umhyggju sem snýr ekki að hæstv. ráðherra persónulega heldur að ríkissjóði verð að segja að vissulega hljótum við þingmenn að hafa áhyggjur af því að erlent stjórnvald hafi nú þegar gripið til aðgerða á grundvelli þessa samkomulags sem síðan er alveg ljóst að eru miklar efasemdir um að njóti fulltingis Alþingis. Þess vegna hefur hæstv. ráðherra verið spurður áður hvort hann hafi haft það tryggt þegar samningamönnunum var heimilað að skrifa undir að það væri meiri hluti fyrir slíku í hans eigin þingflokki og þingflokki Samfylkingarinnar þannig að málið hlyti brautargengi á þingi. Vissulega er það á grundvelli þeirrar samþykktar sem hér var samþykkt á síðasta ári en þar voru sett ákveðin skilyrði fyrir þessum samningi, hvaða skilyrði hann yrði að uppfylla til að Alþingi samþykkti hann og það er mat margra manna að svo sé ekki.