137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samninginn.

[15:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Nú hefur þjóðin og fulltrúar hennar á þingi hægt og bítandi fengið meiri upplýsingar er varða Icesave-samninginn. Gott væri ef hæstv. fjármálaráðherra gæti orðið við því að svara eftirfarandi spurningum okkar til að fá betri innsýn á þekkingu ráðherrans á málinu:

1. Er það rétt að 5.000 aðilar til viðbótar við íslenska þjóðarbúið hafi rétt á að gera kröfur í eignasafn Landsbankans?

2. Er það rétt að hin virta breska endurskoðendaskrifstofa CIPFA hafi eingöngu stuðst við tölur frá skilanefnd Landsbankans þegar hún lagði mat á heimtur eigna Landsbankans, samanber skýrslur CIPFA sem hægt er að sækja á vef þeirra er varða málefni Landsbankans?

3. Hefur hæstv. fjármálaráðherra fengið að sjá eignasafnið? Ef ekki, mun hann eiga kost á að sjá það?

4. Er það rétt að það séu aðeins fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hafa séð þetta safn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar en ekki samninganefndin sjálf? Er það rétt að þessir fulltrúar hafi lagt blessun sína á þetta mat fyrir hönd þjóðarinnar?

5. Munu þingmenn eiga þess kost að sjá eignasafnið áður en þeim er gert að greiða atkvæði um þennan samning? Ef svo er ekki gerir þá hæstv. fjármálaráðherra sér grein fyrir því að þingmenn mega ekki greiða atkvæði um mál sem þeir eru ekki með sanni upplýstir um?