137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samninginn.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi þetta eignasafn er eins og ég segi að sjálfsögðu rétt og skylt að reyna að reiða fram allar mögulegar upplýsingar um það sem hægt er að gera aðgengilegar eftir því sem þær eru best fáanlegar, en þetta eru náttúrlega lánasöfn og ýmsir slíkir hlutir sem ég veit ekki hvort hægt er að fara að sundurliða og brjóta niður á einstaka aðila eða einstök nöfn eða kennitölur. En stærstu þættirnir í þessu eiga auðveldlega að vera aðgengilegir.

Ég hafði ekki tíma til að svara spurningunni með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Mér er mjög til efs að hann hafi verið að rýna ofan í þetta eignasafn og efast stórlega um að hann telji það sitt hlutverk. Það eina sem hann hefur metið er heildarsamkomulagið eða niðurstaðan. Eftir að hún lá fyrir var aflað heimilda frá viðsemjendunum um að senda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum samninginn til þess að hann gæti lagt mat á hann sem hluta af heildarmati sínu á greiðslustöðu þjóðarbúsins og skuldastöðu. Það er eina aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessu máli með slíkum hætti sem mér er kunnugt um.