137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

vandi íbúðakaupenda með myntkörfulán.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég er hingað kominn til að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um aðgerðir til þess að koma til móts við mjög bága stöðu þeirra Íslendinga sem tekið hafa húsnæðislán í erlendri mynt. Það liggur fyrir að stór hópur fólks á Íslandi tók upplýsta ákvörðun að gefnum ráðleggingum þess efnis að fjármagna húsnæðiskaup með svokölluðum myntkörfulánum. Það gerði þessi hópur m.a. á þeim forsendum að hann taldi að verðtryggð íslensk lán væru ekki samkeppnishæf við þessi lán hvað vexti varðaði og annað. Meginþorri einstaklinga í þessum hópi gerði útreikninga sem gerðu ráð fyrir því að gengið mundi jafnvel sveiflast um 30, 40 eða jafnvel 50%.

Það sem kom fyrir þennan hóp lántakenda eftir að hann gerði útreikninga sína er ekki hægt að lýsa með öðru orði en „hamförum“. Höfuðstóll þessara lána hefur hækkað um kannski 100% og upp úr og við höfum ekki enn þá séð nein úrræði frá ríkisstjórninni til að taka á nákvæmlega þeirri stöðu, þ.e. hækkun höfuðstóls. Boðið er upp á teygjur og lengingar.

Það hlýtur allur þingheimur, bæði hæstvirtir og háttvirtir, að vera sammála um að þeim leikfimisæfingum verður að linna, það verður að gera eitthvað til að takast á við það að höfuðstóllinn hefur hækkað sem þessu nemur vegna þess að þetta fólk er í skuldafangelsi. Nú eru farnar að berast fregnir af því að fjölskyldur íhuga að flytja úr landi vegna stöðu sinnar. Það bárust fréttir af því um helgina að sex manna fjölskylda í Hafnarfirði, sem gerði það eitt að kaupa húsnæði á slíkum lánum, íhugar nú flutninga úr landi vegna þess að hún getur ekki tekist á við höfuðstól af þessari stærðargráðu og það stóð heldur aldrei til.

Ég spyr því hæstv. viðskiptaráðherra: Hvaða úrræði býður ríkisstjórnin upp á (Forseti hringir.) gagnvart þessu fólki?