137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

vextir af Icesave.

[15:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það kom fram hjá fulltrúum skilanefndar Landsbankans á fundi hv. efnahags- og skattanefndar í morgun að þeir vextir sem greiðast af láninu sem ríkið mun veita ríkisábyrgð á eru Landsbankanum óviðkomandi, þ.e. að ríkið mun þurfa að borga þá alveg eitt og sér. Hér er um að ræða mjög háa upphæð, hún getur að hámarki orðið um 300 milljarðar en líklega verður hún um 180 milljarðar. Samanlagt þegar maður bætir við 25% af skuldinni geta þetta orðið 340–400 milljarðar sem ríkissjóður skuldar við upphaf átta ára tímabilsins þegar greiðslur hefjast. Það þýða 53–63 milljarðar á ári.

Nú er útflutningur sjávarútvegsins sirka 120 milljarðar. Það þýðir það að við þurfum að afhenda annan hvern fisk til útlendinga sem þýðir að þeir eru komnir á 50% hlut hjá íslenskum fiskiskipum og þá á eftir að borga netin, olíuna og skipin.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta eitthvað sem hann áttaði sig á þegar hann skrifaði undir samninginn? Er þetta eitthvað sem Íslendingar geta borgað til viðbótar við allt hitt, bankahrunið, jöklabréfin o.s.frv.?